KKÍ brýtur reglur EFTA

Hannes S. Jónsson (fyrir miðju)
Hannes S. Jónsson (fyrir miðju) mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Rúv.is greinir frá því í dag að Körfuknattleikssamband Íslands brjóti reglur EFTA með því að heimila aðeins einn erlendan leikmann inni á vellinum í einu í körfuknattleiksleikjum innan sambandsins, burt sé frá því hvaðan leikmaðurinn kemur.

ESA, eftirlitsstofnun EFTA, kom með tilkynningu þess efnis og segir leikmönnum mismunað með þessari reglu. 

Með því að hafa sömu reglur um leikmenn frá þjóðum innan Evrópska efnahagssvæðisins og borgara annarra ríkja, t.d Bandaríkjunum, brýtur Körfuknattleikssambandið reglur EFTA. Samkvæmt frétt RÚV geta íslensk stjórnvöld leyst málið með að leyfa liðum að hafa ótakmarkaðan fjölda leikmanna innan Evrópska efnahagssvæðisins inni á körfuboltavellinum í einu, en enn haft kvóta á leikmenn utan þess. 

Kvörtun barst til eftirlitsstofnunar EFTA þann 30. ágúst 2016 og voru íslensk stjórnvöld látin vita af málinu í september í fyrra. Mbl.is spurði Hannes S. Jónsson, formann Körfuknattleikssambands Íslands út í málið og hann segir sambandið ekki hafa heyrt af því fyrr en fyrir um tveimur vikum síðan. 

„Það er mikilvægt að taka fram að þetta er engin niðurstaða, heldur einungis álit út frá kvörtun sem var gerð fyrra. Það er enginn að segja okkur að breyta einhverjum reglum ennþá. Við heyrðum fyrst af þessari kvörtun fyrir tveimur vikum síðan og við vorum hissa á að sjá hana án þess að við fengum eitthvað formlegt í hendurnar," sagði Hannes sem er staddur í Tékklandi þar sem Evrópumót kvenna fer fram um þessar mundir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert