Þjálfarinn suðaði endalaust í mér

Martin Hermannsson í landsleik.
Martin Hermannsson í landsleik. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

„Ég held að þetta sé rétt skref,“ sagði Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, í samtali við mbl.is nú fyrir stundu. Hann hefur samið við lið Chalons-Reims í frönsku A-deildinni og kemur þaðan frá Charleville þar sem hann fór mikinn í B-deildinni síðasta vetur.

„Ég skrifaði undir bara um miðnætti í gærkvöldi. Þetta hefur verið í vinnslu en var klárað í gær,“ sagði Martin. Calons-Reims hafnaði í 16. sæti af 18 liðum í A-deildinni, en gamli þjálfarinn hans hjá Charleville tók við liðinu eftir tímabilið og vildi ólmur fá Martin með sér.

„Hann hefur suðað í mér endalaust eftir að hann tók við að ég komi með honum. Ég var búinn að skoða aðra valmöguleika þar sem margt stórt og spennandi var í boði, en ég held að þetta sé rétt skref að elta hann,“ sagði Martin, en mörg stórlið voru að fylgjast með honum.

„Það voru mörg tilboð frá liðum í A-deildinni, svo fékk ég nokkur frá Grikklandi og tvö lið í ACB-deildinni [efstu deild á Spáni] sem voru farin að tala við mig. Það var margt spennandi en ég held að þetta sé rétt skref og á eftir að hjálpa mér að þroskast sem leikmaður,“ sagði Martin.

Martin Hermannsson í leik með Charleville.
Martin Hermannsson í leik með Charleville. Ljósmynd/David Henrot

Eitt skref í átt að toppnum

Martin var annar í kjörinu á besta leikmanni B-deildarinnar nú í vor og skilaði rúmum 17 stigum að meðaltali í leik. Hann mun fá stórt hlutverk hjá sínum gamla þjálfara þar sem honum er vel treyst.

„Hann vill byggja liðið í kringum mig og hann mun leyfa mér að blómstra. Það er sama hugsun og var í B-deildinni, svo ég spila fullt og verð mikið með boltann. Nú er bara komið að því að sanna sig í A-deildinni eins og ég gerði í B-deildinni,“ sagði Martin og var sammála því að þetta var nokkuð öruggt skref á ferlinum.

„Þetta er svolítið innan þægindarammans. Það hentar líka vel því Eurobasket klárast seint og það væri óþægilegt að koma inn í nýjar aðstæður 10. september þegar liðið hefur æft saman síðan 10. ágúst. Þetta er því nokkuð þægilegt, ég fer inn í aðstæður sem ég þekki og mun spila á sama kerfi,“ sagði Martin.

Hann samdi til eins árs og ljóst er að hann stefnir hærra eftir næsta tímabil.

„Ég ætla mér eitthvað stærra og meira eftir þetta tímabil. Ég er að ganga upp þennan stiga og reyna að komast á toppinn. Þetta er eitt skref að því,“ sagði Martin Hermannsson í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert