Á ókunnum slóðum

Martin Hermannsson leikur í frönsku A-deildinni næsta vetur.
Martin Hermannsson leikur í frönsku A-deildinni næsta vetur. mbl.is/Árni Sæberg

Íslendingar hafa aldrei átt leikmann í efstu deild karla í körfubolta í Frakklandi í gegnum tíðina. Nú hefur það snarbreyst þar sem Haukur Helgi Pálsson og Martin Hermannsson hafa báðir samið við lið í frönsku A-deildinni. Haukur við Cholet Basket á dögunum eins og greint hefur verið frá og Martin samdi í gær við Chalons-Reims.

Chalons-Reims hafnaði í 16. sæti af 18 liðum í A-deildinni á síðustu leiktíð og slapp naumlega við fall. Liðið skipti um þjálfara og réð þjálfara Charleville sem Martin lék ljómandi vel með í frönsku b-deildinni í vetur. Martin tjáði mbl.is í gær að þjálfarinn hefði lagt hart að honum að fylgja sér og íslenski landsliðsmaðurinn sér því fram á að fá stórt hlutverk hjá þjálfara sem hefur trú á honum.

Til gamans má geta þess að Reims kom til Íslands og mætti Keflavík í Evrópukeppni árið 2004. Svo fór að Keflvíkingar unnu báða leikina 93:73 á heimavelli og 106:94 í Frakklandi. Í framhaldinu fékk franska liðið Nick Bradford til sín.

Þrjár atvinnumannadeildir

Talsvert vatn hefur runnið til sjávar í frönskum körfubolta síðan 2004. Landslið Frakka er á meðal þeirra bestu í heimi og varð Evrópumeistari 2013. Margir Frakkar spila í NBA-deildinni með tilheyrandi vinsældum í heimalandinu. Landsliðsmaðurinn Logi Gunnarsson þekkir býsna vel til í Frakklandi eftir að hafa leikið með tveimur frönskum b-deildarliðum á ferlinum. Lauk hann raunar löngum ferli í atvinnumennsku í Frakklandi.

„Áhuginn á körfuboltanum er mjög mikill og íþróttin er mjög stór sem sést best á því að þar eru margar deildir. Í það minnsta þrjár efstu deildirnar eru atvinnumannadeildir,“ sagði Logi við Morgunblaðið í gær og í því sambandi má benda á að öflugir leikmenn sem fóru á kostum hér heima eins og Michael Craion og Aaron Broussard fóru báðir í c-deildina frönsku þegar þeir fóru frá Íslandi. „Fyrir fámenna þjóð er merkilegt að eiga tvo leikmenn í efstu deild í Frakklandi á sama tíma,“ bætti Logi við.

Nánari umfjöllun má lesa í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert