Grátlegt tap fyrir Ítalíu

Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var stigahæstur íslenska liðsins.
Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var stigahæstur íslenska liðsins. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska U20-karlalandsliðið í körfubolta þurfti að sætta sig við ansi svekkjandi tap gegn Ítalíu, 67:66, í síðasta leiknum á alþjóðlegu móti sem lauk á grísku eyjunni Krít í gær. Það var síðasti leikurinn fyrir Evrópumótið sem hefst á Krít á laugardaginn.

Ítalska liðið var með 67:65 forystu þegar ein sekúnda var eftir. Þá fékk Tryggvi Snær Hlinason tækifæri til að jafna er hann fékk tvö vítaskot. Hann nýtti hins vegar aðeins annað þeirra og því fór sem fór. 

Þórir Guðmund­ur Þor­bjarn­ar­son var stigahæstur íslenska liðsins með 21 stig, Kristinn Pálsson skoraði 12 og Tryggvi Snær var með níu stig og 15 fráköst. Davide Moretti var stigahæstur á vellinum með 27 stig. 

Íslenska liðið tapaði öllum þremur leikjum sínum, gegn Spáni, Grikklandi og Ítalíu, og hafnaði í neðsta sæti mótsins.

Íslenska liðið verður í fyrsta skipti í A-deild Evrópumótsins. Ísland er í riðli með Svart­fjalla­landi, Frakklandi og Tyrklandi og er fyrsti leikurinn gegn Frökkum á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert