Fáránlega stoltur af þessum strákum

Íslenska liðið fagnar sigrinum í dag.
Íslenska liðið fagnar sigrinum í dag. Ljósmynd/FIBA

„Ég er fáránlega stoltur af þessum strákum, það er ekki hægt að orða það öðruvísi. Þeir eru búnir að ganga í gegnum margt í undirbúningnum sem hefur þjappað okkur saman. Þetta er þvílíkt flottur hópur, sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri, við mbl.is eftir glæsilegan 73:39 sigur á Svíþjóð í 16-liða úrslitum Evrópumótsins í dag. 

Íslenska liðið lenti 14:2 undir í upphafi leiks, en eftir það var okkar lið með mikla yfirburði. 

„Við ætlum okkur svo mikið, við viljum þetta svo mikið. Við fórum aðeins frá því sem við ætluðum að gera í byrjun, en svo sýndum við hvað í okkur býr og náðum að snúa því við."

Kári Jónsson var óvænt með í leiknum í dag eftir að hafa meiðst gegn Tyrkjum í riðlakeppninni. 

„Kári sneri sig illa á móti Tyrkjum en það er búið að sinna honum vel og sjúkraþjálfarinn á hrós skilið fyrir það. Við stefndum að því að hann yrði með í þessum leik. Við prófuðum hann í upphitun og honum leið vel."

Ísland mætir Ítalíu eða Ísrael í átta liða úrslitum. Finni er nokkuð sama hvoru liði íslenska liðið mætir. 

„Mér er alveg sama, við vitum að öll þessi lið eru góð. Við erum að einbeita okkur að okkur sjálfum og við ætlum að fylgja okkur reglum og við gerum okkar. Ef það gengur ekki þá einbeitum við okkur að því að gera það betur," sagði Finnur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert