Segir Tryggva geta komist í NBA

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari íslenska liðsins.
Craig Pedersen, landsliðsþjálfari íslenska liðsins. mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karlaliðs Íslands í körfubolta, ræddi við mbl.is í dag. Liðið undirbýr sig nú fyrir Evrópumótið sem fram fer í Finnlandi í haust og fyrstu leikirnir í þeim undirbúningi eru gegn Belgíu hér á landi í vikunni. Pedersen segir undirbúninginn hafa gengið töluvert betur en hann bjóst við. 

„Undirbúningurinn hefur farið betur af stað en ég gat látið mig dreyma um. Leikmennirnir mættu til æfinga í mjög góðu standi og það var mikil ákefð í mönnum frá byrjun og ég er ánægður með að sú ákefð hefur verið til staðar á öllum æfingum í undirbúningnum til þessa. Einbeitingin og flæðið í æfingunum hefur líka verið mjög gott og þetta hefur verið mikið betri byrjun en ég bjóst við."

Eftir leikina við Belga taka við leikir í Rússlandi, Litháen og Ungverjalandi. 

„Við mætum Belgíu tvisvar í vikunni og það eru sérstaklega gott fyrir reynsluminni leikmenn og þá sem eru að berjast um sæti í liðinu. Aðrir leikmenn munu svo að sjálfsögðu spila þá leiki líka. Í leikjunum í Rússlandi munum við spila á þeim mönnum sem munu spila á EM, en þó gefa þeim einhverja hvíld inn á milli. Við viljum að sjálfsögðu vinna þá leiki, en ekki á kostnað meiðsla og því munum við fara aðeins varlega. Við munum einnig leyfa leikmönnum eins og Tryggva að spreyta sig á móti bestu leikmönnum Evrópu."

„Leikirnir gegn Ungverjalandi og Litháen eru svo til að komast að því hvaða liðsskipan virkar best á ákveðnum tímum í leikjunum, svo eftir það mætum við til Finnlands."

Íslenska landsliðið skipað leikmönnum 20 ára og yngri hafnaði í áttunda sæti á EM í Grikklandi fyrr í þessum mánuði. Pedersen fylgdist með mótinu og hann segir Tryggva Snæ Hlynason, sem sló í gegn á mótinu, geta spilað í NBA-deildinni í Bandaríkjunum, bestu körfuboltadeild heims. 

Craig Pedersen og Arnar Guðjónsson
Craig Pedersen og Arnar Guðjónsson mbl.is/Hanna Andrésdóttir

„Ég fylgdist eins vel með og ég gat og ég horfði á nokkra leiki og svipmyndir úr öllum leikjunum. Ég horfði einnig á leikina sem þeir spiluðu í undirbúningi fyrir mótið og Tryggvi hefur bætt sig mikið. Ef hann heldur áfram að bæta sig eins og hann hefur gert á undanförnum árum, þá reikna ég með því. Hann er mjög fljótur að læra og skilja það sem er búist við af honum. Ef hann heldur því áfram að læra og fær að einbeita sér að körfubolta hjá Valencia þá getur hann náð gríðarlega langt og við vonum að hann komist í NBA."

Ísland er í gríðarlega erfiðum riðli á EM, en Pedersen segir möguleika til staðar. Ásamt Íslandi er Grikkland, Pólland, Frakkland, Slóvenía og Finnland. 

„Það er erfitt að segja, þrjú af tólf bestu liðum heims eru í riðlinum og hin tvö voru á meðal sextán efstu á síðasta Evrópumóti. Við erum að spila við fimm góð lið og það mikilvægasta er að spila vel. Ef við eigum góða daga þá getum við unnið leiki á þessu móti, sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert