Undirbúningurinn hefst gegn Belgum

Kristófer Acox, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, Hlynur Bæringsson, Jón Arnór Stefánsson, …
Kristófer Acox, Sigurður Gunnar Þorsteinsson, Hlynur Bæringsson, Jón Arnór Stefánsson, Ægir Þór Steinarsson og Martin Hermannsson verða allir í eldlínunni gegn Belgum í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska karlalandsliðið í körfubolta mætir Belgum tvívegis í vináttulandsleikjum hér á landi í vikunni. Fyrri leikurinn fer fram í Smáranum í Kópavogi kl. 19:15 annað kvöld og síðari leikurinn á laugardaginn kl. 17:00 í Vesturgötu á Akranesi. 

Leikirnir eru þeir fyrstu sem liðið spilar í undirbúningi sínum fyrir lokakeppni Evrópumótsins í Finnlandi í haust. Þeir Dagur Kár Jónsson, Gunnar Ólafsson, Matthías Orri Sigurðarson og Pétur Rúnar Birgisson eru ekki lengur í landsliðshópnum, sem var skorinn niður fyrir leikina. 

Kristinn Pálsson, Kári Jónsson og Tryggvi Snær Hlinason verða svo ekki með í leikjunum gegn Belgum, þar sem þeir fá hvíld eftir að hafa staðið í ströngu á Evrópumóti U20 ára í Grikklandi þar sem liðið hafnaði í áttunda sæti. Þeir eru hins vegar enn í landsliðshópnum og fara að öllum líkindum með liðinu til Finnlands. 

Eftir leikina gegn Belgum taka við tvær æfingaferðir, annars vegar til Rússlands, þar sem keppt verður við Rússa, Þjóðverja og Ungverja, áður en leiðin liggur til Ungverjalands, þar sem spilaður verður einn leikur við heimamenn. Loks spilar Ísland við Litháen ytra í síðasta leik sínum fyrir Evrópumótið. Fyrsti leikur Íslands á EM er gegn Grikkjum þann 31. ágúst næstkomandi. 

Hópurinn sem mætir Belgum: 

Axel Kárason - Tindastóll
Brynjar Þór Björnsson - KR
Elvar Már Friðriksson - Barry Háskólinn í Bandaríkjunum
Haukur Helgi Pálsson - Cholet 
Hlynur Bæringsson - Stjarnan
Hörður Axel Vilhjálmsson - Astana
Jón Arnór Stefánsson - KR
Kristófer Acox - KR
Logi Gunnarsson - Njarðvík
Martin Hermannsson - Châlon-Reims
Ólafur Ólafsson - Grindavík
Pavel Ermolinskij - KR
Ragnar Ágúst Nathanaelsson - Njarðvík
Sigtryggur Arnar Björnsson - Tindastóll
Sigurður Gunnar Þorsteinsson - AE Larissa
Ægir Þór Steinarsson - San Pablo

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert