„Erum afslappaðri núna“

Hörður Axel Vilhjálmsson keyrir upp að körfu Belga í kvöld.
Hörður Axel Vilhjálmsson keyrir upp að körfu Belga í kvöld. mbl.is/Golli

Hörður Axel Vilhjálmsson, leikstjórnandi íslenska landsliðsins í körfubolta, var nokkuð sáttur að loknum sigurleiknum gegn Belgíu en þjóðirnar mættust í vináttulandsleik í Smáranum í kvöld. 

Undirbúningur liðanna fyrir lokakeppni EM er nýhafinn en Ísland sigraði 83:76. Hörður sagði leikinn vera fína byrjun á undirbúningsferlinu: „Jú þetta var fín byrjun. Góð „rótering“ á leikmannahópnum og margir leikmenn komu vel út úr þessum leik í kvöld sem er jákvætt. Samkeppnin um sæti í lokahópnum verður mikil.“

Hörður ber mikla ábyrgð í sókninni hjá Íslandi og hefur gert síðustu árin. Á hann von á því að liðið muni reyna að tileinka sér nýjar áherslur í sókninni á þessum mánuði sem er framundan áður en EM hefst? 

„Já að einhverju leyti en kannski má kalla það smávægilegar breytingar. Bakbeinið er þó alltaf svipað. Eins og áður þurfum við mikið flæði í sókninni til að vörn andstæðinganna fari á hælana vegna þess að við erum margir lágvaxnir og snöggir, alla vega bakverðirnir, og getum allir skotið. Við þurfum að teygja á vörninni og láta boltann vinna fyrir okkur. Í þessum leik kom stundum fyrir að við héngum aðeins of mikið á boltanum en þegar við hreyfum hann hratt þá erum við bestir.“

Hörður segir andrúmsloftið í hópnum vera svolítið frábrugðið því sem var fyrir tveimur árum þegar frumraun á stórmóti var framundan. „Núna vitum við hvað við erum að fara út í en fyrir tveimur árum hafði maður ekki hugmynd um hvernig upplifunin yrði. Við erum því aðeins afslappaðri núna en spenntir samt sem áður. Við gerum meiri kröfur til okkar í þetta skiptið en síðast vorum við sáttir við að komast inn í lokakeppnina,“ sagði Hörður Axel í samtali við mbl.is í Smáranum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert