Íslenskur sigur í Smáranum

Ísland hafði betur gegn Belgíu 83:76 í vináttulandsleik í körfuknattleik í Smáranum í Kópavogi í kvöld. Um var að ræða fyrsta leik íslenska liðsins í undirbúningi sínum fyrir lokakeppni EM karla í Helsinki sem hefst eftir rúman mánuð.  

Alls verða vináttuleikirnir sjö sem íslenska liðið leikur áður en það hefur keppni á EM í lok ágúst. Undirbúningsferlið fór vel af stað í kvöld en Belgar eru einnig á meðal þeirra þjóða sem komust á EM og náðu þeir í 16-liða úrslit á EM fyrir tveimur árum. Því er um fín úrslit að ræða hjá Íslandi í kvöld en leikmenn á borð við Jón Arnór Stefánsson, Pavel Ermolinskij og Tryggva Snæ Hlinason voru hvíldir. 

Ísland skoraði sjö fyrstu stigin og var yfir þar til leiknum lauk. Okkar menn náðu mest sautján stiga forskoti í fyrri hálfleik en að honum loknum var staðan 47:35. Belgarnir voru öflugri í síðari hálfleik og þeim tókst að minnka muninn niður í eitt stig í síðasta leikhlutanum. Nær komust þeir þó ekki og Ísland náði aftur tíu stiga forskoti. 

Langflestir leikmenn Íslands komust vel frá leiknum. Allir sem voru á skýrslu komu við sögu og allir nema einn skoruðu stig. Flest stigin gerði Martin Hermannsson, eða 15, en hann tók einnig flest fráköst, eða 5, eins undarlega og það kann að hljóma. Næstir í stigaskorun komu fyrirliðinn Hlynur Bæringsson, Logi Gunnarsson og Kristófer Acox með 10 hver. Elvar Már Friðriksson var duglegur að leita félaga sína uppi og gaf 7 stoðsendingar en nokkrar þeirra voru augnayndi. 

Sigtryggur Arnar Björnsson lék sinn fyrsta A-landsleik á sínum gamla heimavelli og komst mjög vel frá honum. Setti niður tvö þriggja stiga skot og fékk ruðning á andstæðingana sem skilaði tæknivillu í kjölfarið. 

Lið Íslands: Ægir Þór Steinarsson, Kristófer Acox, Sigurður Þorsteinsson, Hlynur Bæringsson (fyrirliði), Elvar Már Friðriksson, Sigtryggur Arnar Björnsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Logi Gunnarsson, Martin Hermannsson, Ólafur Ólafsson, Haukur Helgi Pálsson, Brynjar Þór Björnsson. 

Ísland 83:76 Belgía opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert