Margt gekk virkilega vel

Martin Hermannsson í landsleik.
Martin Hermannsson í landsleik. mbl.is/Golli

„Mótið gekk upp og niður. Það var fullt af hlutum sem þarf að laga og á sama tíma hellingur af hlutum sem við gerðum virkilega vel,“ sagði Martin Hermannsson í samtali við Morgunblaðið. Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik vann einn leik og tapaði tveimur í fjögurra þjóða alþjóðlegu móti í Kazan í Rússlandi sem fór fram um helgina.

Ísland vann Ungverjaland en tapaði fyrir Rússum og Þjóðverjum.

Martin, sem var stigahæstur Íslendinga í öllum leikjunum, sagði að það væri gott að fá leiki á móti svona sterkum þjóðum í undirbúningi fyrir Evrópumótið í körfuknattleik, en Ísland mætir Grikklandi þar í fyrsta leik síðasta dag ágústmánaðar.

„Þetta hefur verið þétt dagskrá hjá okkur og núna fer hver æfing að verða mikilvægari þegar það er svona stutt í mót.“

Framhaldið leggst mjög vel í Martin, sem telur að liðið þurfi aðeins að slípa saman strengina áður en það stígur á stóra sviðið í Finnlandi. „Við sýndum það sérstaklega í seinni hálfleik í dag (í gær) á móti Rússum að við getum alveg spilað við þessar sterkustu þjóðir. Við þurfum samt á þessum æfingum og æfingaleikjum að halda sem eftir eru til þess að fínpússa okkur.“ Íslenska liðið lék einkar vel í þriðja leikhluta gegn Rússum, en þá skoruðu heimamenn ekki nema 12 stig, eftir að hafa verið 17 stigum yfir að loknum fyrri hálfleik. Þeir höfðu að lokum 13 stiga sigur, 82:69.

Aðspurður telur Martin íslenska liðið betur undirbúið og að það verði tilbúnara þegar flautað verður til leiks á Evrópumótinu en það var þegar það þreytti frumraun sína á stórmóti fyrir tveimur árum í Þýskalandi.

Nánar er rætt við Martin í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert