Jón Arnór í hópnum en þrír bíða heima

Jón Arnór Stefánsson fór með landsliðinu.
Jón Arnór Stefánsson fór með landsliðinu. mbl.is/Árni Sæberg

Eins og mbl.is sagði frá í morgun þá fór íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik í sína aðra æfingaferð fyrir lokakeppni EM í Finnlandi sem hefst í lok mánaðarins. 12 leikmenn fóru í ferðina.

Helst ber þar að frétta að Jón Arnór Stefánsson, sem hefur ekkert spilað vegna meiðsla, er með í för. Æfingahópurinn inniheldur ennþá 15 leikmenn, en þeir Axel Kárason, Ólafur Ólafsson og Sigtryggur Arnar Björnsson koma til æfinga að nýju við heimkomuna.

Dagana 19. og 20. ágúst verður leikið gegn Ungverjum í bænum Székesfehérvár. Ungverjar voru einnig á mótinu í Rússlandi í síðustu viku sem Ísland tók þátt í, en þeir eru með hörkulið, sem stóðu sig frábærlega í undankeppninni síðasta sumar.

Daginn eftir, þann 21. ágúst, heldur liðið yfir til Litháen og mun leika gegn heimamönnum þann 23. ágúst í bænum Siauliai. Litháenska liðið er með því besta í Evrópu og stórþjóð í körfuknattleik og verður gagnlegt og gaman að mæta þeim. Liðið kemur svo heim þann 24. ágúst og mun svo halda til Finnlands á EM þann 28. ágúst.

Hópurinn sem fór út í morgun:

Martin Hermannsson - Chalon-Reims
Ægir Þór Steinarsson - San Pablo
Kristófer Acox - KR
Hlynur Bæringsson - Stjarnan 
Jón Arnór Stefánsson - KR
Elvar Már Friðriksson - Barry Háskólinn í Bandaríkjunum
Hörður Axel Vilhjálmsson - Astana
Logi Gunnarsson - Njarðvík
Pavel Ermolinskij - KR
Haukur Helgi Pálsson - Cholet
Tryggvi Snær Hlinason - Valencia
Brynjar Þór Björnsson – KR

Þjálfari er Craig Pedersen og aðstoðarþjálfarar eru Arnar Guðjónsson og Finnur Freyr Stefánsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert