„Gríska undrið“ ekki með á EM

Giannis Antetokounmpo með boltann í leik gegn Toronto Raptors.
Giannis Antetokounmpo með boltann í leik gegn Toronto Raptors. AFP

Giannis Antetokounmpo, einn mest spennandi leikmaður bandarísku NBA-deildarinnar í körfubolta, verður ekki með Grikkjum á EM vegna meiðsla. Þetta tilkynnti hann á Facebook-síðu sinni í gær. Antetokounmpo leikur með Milwaukee Bucks og skoraði hann 22,9 stig og tók 8,7 fráköst að meðaltali í leik á síðustu leiktíð. 

Hvernig ætla okk­ar menn að stöðva gríska undrið?

Leikmaðurinn var staddur með félagsliði sínu í Kína og staðfestu læknar liðsins að hann væri meiddur. Gríska körfuboltasambandið er hins vegar allt annað en sátt við þessa niðurstöðu og segja forráðamenn þess að hann sé ekki meiddur heldur vilji Milwaukee einfaldlega ekki senda einn sinn besta leikmann á EM. 

„Það er ekki satt að hann sé meiddur. Við sendum hann í myndatöku og þá kom í ljós að fóturinn á honum er í góðu lagi,“ segir í tilkynningu frá gríska sambandinu. 

Þetta eru ágætar fréttir fyrir íslenska landsliðið sem mætir einmitt Grikkjum í fyrsta leik á Evrópumótinu 31. ágúst næstkomandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert