„Get ekki pönkast í gegnum þessi meiðsli“

Jón Arnór Stefánsson er í kapphlaupi við tímann.
Jón Arnór Stefánsson er í kapphlaupi við tímann. Eva Björk Ægisdóttir

Þegar rúm vika er í fyrsta leik Íslands í lokakeppni Evrópumóts landsliða í körfubolta í Helsinki er sá landsliðsmaður sem mest hefur afrekað, Jón Arnór Stefánsson, enn á hliðarlínunni. Jón hefur aðeins tekið þátt í einum vináttulandsleik í sumar, gegn Belgíu á Akranesi, og tognaði þá í nára.

„Ég er smeykur við að fara af stað. Ég er meiddur og það er stutt í Eurobasket. Ef ég hefði tekið þátt í leikjunum er hætt við að ég hefði farið aftur í náranum. Ég er ekki orðinn nógu góður. Staðan er ekki flóknari en svo,“ sagði Jón þegar Morgunblaðið spjallaði við hann í gær. Jón sagði mjög ólíklegt að hann tæki þátt í síðasta vináttulandsleiknum gegn Litháen ytra í dag.

Forsaga málsins er sú að Jón varð fyrir meiðslum í nára í lokaleik Íslandsmótsins á móti Grindavík. Ekki var talið að meiðslin væru alvarleg og hann hélt inn í sumarfrí í kjölfarið. Eftir stutt frí fór Jón að æfa á ný og kenndi sér ekki meins þar til í leiknum á Akranesi.

„Ég myndi fara í sprautur, aftöppun, nálar eða hvað sem er til að geta spilað fyrir Ísland. Ég get bara ekki pönkast í gegnum þessi meiðsli því þau eru allt öðruvísi og forsendurnar eru aðrar. Því miður.“

Viðtalið í heild sinni er í íþróttablaði Morgunblaðsins í kvöld.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert