Ættarmót hjá Martin í Helsinki

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. mbl.is/Golli

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, segir svo gott sem allt sitt bakland vera mætt til Helsinki til að hvetja íslenska landsliðið í lokakeppni EM. 

„Hér í Finnlandi er nokkurs konar ættarmót í minni fjölskyldu. Nánast allir sem maður þekkir eru komnir á svæðið, hvort sem það eru frænkur og frændur eða ömmur og afar. Það er gaman að hafa alla fjölskylduna hérna og gott að fólk geri sér ferð hingað til að sjá landsliðið. Fólk verður ekki fyrir vonbrigðum. Ég get lofað því,“ sagði Martin þegar mbl.is tók hann tali í dag. 

„Það er ótrúlegt að komið sé að þessu vegna þess að maður er búinn að bíða síðan við unnum Belgana í fyrra. Maður er búinn að bíða í allan vetur eftir þessu og leggja mikið á sig, til dæmis með aukaæfingum, fyrir þessa stund. Fiðringurinn er að magnast og allar tilfinningar sem maður getur fundið eru að byggjast upp inni í manni. Það er smá „reality check“ að nú sé komið að þessu og fyrsti leikur sé á morgun.“

Martin er í miklu stærra hlutverki í landsliðinu heldur en fyrir tveimur árum. Hann lék vel í Frakklandi í vetur og fékk í kjölfarið samning hjá liði í efstu deild í Frakklandi. Auk þess hefur Martin skorað mikið í vináttulandsleikjunum í sumar. Er ekki sjálfstraustið í botni hjá honum? „Alveg klárlega en reyndar hefur sjálfstraustið alltaf verið til staðar hjá mér síðan ég byrjaði í íþróttinni. Ég hef alltaf verið léttklikkaður því ég hef alltaf talið mig vera betri en næsti maður. Maður verður að hafa trú á sér og sérstaklega þegar maður er kominn á þetta svið. Það er partur af þessu. Almennt séð þá líður mér vel því ég hef lagt hart að mér til að komast í byrjunarliðið í landsliðinu og fá stærra hlutverk. Þannig get ég hjálpað liðinu mínu og liðsfélögum að verða betri. Ég er tilbúinn í það hlutverk,“ sagði Martin í samtali við mbl.is. 

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert