„Stórkostleg upplifun“

Frá leik Amarican University frá Washington DC og ÍR árið …
Frá leik Amarican University frá Washington DC og ÍR árið 1952 í íþróttahúsinu sem bandaríski herinn reisti í Reykjavík 1943 Ljósmynd/Ragnar Vignir

Körfuknattleikur eins og hann er leikinn í dag náði fótfestu á þremur stöðum hér á landi laust fyrir 1950, í Reykjavík, á Laugarvatni og Keflavíkurflugvelli, án þess að tengsl væru þar á milli. Áður hafði verið leikinn „reitakörfubolti“ á tveimur fyrrnefndu stöðunum, leikur sem íþróttakennarar höfðu kynnst á skólum í Danmörku, en reglurnar í þeim leik voru mjög frábrugðnar þeim sem menn þekkja í dag.

Fyrstur til að kenna hinn „eina rétta“ körfubolta hérlendis var að öllum líkindum Bragi Magnússon, Akureyringur sem hóf kennslu við Íþróttakennaraskólann á Laugarvatni 1946, strax að loknu námi í Bandaríkjunum.

Margir mjög snjallir

Með komu bandarískra hermanna komu fyrstu löglegu aðstæðurnar: Þeir byggðu íþróttahús og komu með leiktækin. Þegar greinarhöfundur vann að ritun Leikni framar líkamsburðum, bókar um sögu körfuknattleiks á Íslandi, um aldamótin, fullyrtu viðmælendur að hér hefðu verið margir mjög snjallir körfuknattleiksmenn og þar með hefðu Íslendingar verið komnir í beint samband við íþróttina eins og hún gerðist þá best í heiminum.

Eftir að Bandaríkjamenn og Íslendingar gerðu varnarsamning vorið 1951 komu fyrstu bandarísku hersveitirnar til landsins og um 5.000 hermenn komu sér fyrir á Keflavíkurflugvelli á Miðnesheiði

Ingi heitinn Gunnarsson, fyrirliði fyrstu Íslandsmeistaranna og fyrsta landsliðsins, hóf störf hjá íslenska ríkinu á Keflavíkurflugvelli 1948 og sagðist hafa kynnst íþróttinni fyrir hreina tilviljun af starfsmönnum Lockheed, fyrirtækis sem sá um rekstur flugvallarins fyrir Bandaríkjamenn, en þeir höfðu haft yfirstjórn hans með höndum um skeið.

„Við, Íslendingarnir, höfðum áhuga á handbolta á þessum tíma en Bandaríkjamennirnir vissu ekki hvað það var. Og þegar við komum í íþróttahúsið þeirra á Vellinum fórum við að fikta við þennan körfubolta því þar var ekki annað í boði,“ sagði Ingi í samtali við greinarhöfund.

Það þættu án efa stórtíðindi ef eitthvert af bestu liðum Bandaríkjanna kæmi til Íslands og leikmenn þess sýndu listir sínar, hvað þá ef Íslendingar fengju að spila með þeim. Einmitt það gerðist vorið 1956.

Greinina í heild sinni má finna í sérblaði sem fylgir Morgunblaðinu í dag um Evrópumótið í körfuknattleik sem hefst á morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert