Rússar síðastir inn í 8-liða úrslitin

Darko Planinic og Ivan Ramljak í baráttu við Aleksei Shved …
Darko Planinic og Ivan Ramljak í baráttu við Aleksei Shved og Andrei Zukov í leik Króatíu og Rússlands í kvöld. AFP

Nú er orðið ljóst hvaða lið mætast í 8-liða úrslitum Evrópumóts karla í körfubolta en 16-liða úrslitunum var að ljúka.

Rússland vann 23 stiga sigur á Króatíu í síðasta leik 16-liða úrslitanna í kvöld, 101:78. Alexei Shved var afar atkvæðamikill fyrir Rússa og skoraði 27 stig, en hann hitti úr 7 af 16 skotum í opnum leik og 10 af 12 vítum, auk þess að gefa 12 stoðsendingar og taka 4 fráköst. Staðan í hálfleik var 46:42 Rússum í vil en þeir bættu vel við forskotið í þriðja leikhluta og unnu að lokum öruggan sigur.

Fyrr í dag vann Spánn sigur á Tyrklandi, 73:56, og Serbía hafði betur gegn Ungverjalandi, 86:78. Þá vann Lettland stórsigur á Svartfjallalandi, 100:68.

Í 8-liða úrslitunum eru tvö lið sem léku með Íslandi í riðli á mótinu; Slóvenía og Grikkland.

8-liða úrslit:

12. september:
Þýskaland - Spánn
Slóvenía - Lettland

13. september:
Grikkland - Rússland
Ítalía - Serbía

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert