Spánverjar úr leik á EM

Luka Doncic og Goran Dragic eru komnir í úrslitaleikinn á …
Luka Doncic og Goran Dragic eru komnir í úrslitaleikinn á EM. AFP

Slóvenía kom á óvart á EM í körfubolta í Tyrklandi í kvöld og skellti Evrópumeisturum Spánverja í undanúrslitum keppninnar 92:72. Slóvenía mætir Serbíu eða Rússlandi í úrslitaleiknum en svo langt hefur Slóvenía aldrei fyrr komist á stórmóti í körfuknattleik. 

Slóvenía og Spánn höfðu unnið alla sjö leiki sína í keppninni til þessa. Þrátt fyrir það bjuggust líklega flestir körfuboltaspekingar við sigri Spánverja enda þeir með ógnarsterkt lið. Spánn sigraði á EM fyrir tveimur árum og fékk silfurverðlaun á Ólympíuleikunum í Ríó í fyrra. 

Slóvenía sigraði í A-riðli Íslands í Helsinki og lagði þar að velli Frakka og Grikki. Eftir það var álitið að liðið gæti spilað um verðlaun í mótinu og sú varð raunin. Liðið hefur ekki stigið feilspor í keppninni og í kvöld létu Slóvenar þriggja stiga körfunum rigna yfir Spánverja. Alls gerðu Slóvenar fjórtán þriggja stiga körfur og þar af voru tíu komnar í fyrri hálfleik. Að honum loknum hafði Slóvenía yfir 49:45. 

Í þriðja leikhluta fór munurinn upp í sextán stig og jókst enn frekar í síðasta leikhlutanum. Í þriðja leikhlutanum var grunnurinn að sigrinum lagður en þar hafði Slóvenía betur 24:12. 

Besti árangur Slóveníu til þess á EM var 4. sæti árið 2009 en besti árangur liðsins á HM er 7. sæti. 

18 ára gamla ungstirnið Luka Doncic brást ekki og var nærri þrefaldri tvennu, skoraði 11 stig, tók 12 fráköst og gaf 8 stoðsendingar. Slóvenar hittu á leik þar sem mjög margir lögðu hönd á plóginn. Pau Gasol var stigahæstur hjá Spáni með 16 stig og tók 6 fráköst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert