Höfum trú á okkur og erum brattir

Finnur Freyr Stefánsson mætir með lærisveina sína í Evrópukeppni.
Finnur Freyr Stefánsson mætir með lærisveina sína í Evrópukeppni. mbl.is/Golli

„Við höfum beðið lengi eftir því að komast í þessa keppni,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari Íslandsmeistara KR í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið en KR-ingar verða í dag fyrsta íslenska liðið frá árinu 2008 sem tekur þátt í Evrópukeppni. Það ár léku þeir sjálfir gegn Banvit frá Tyrklandi.

KR mætir belgíska liðinu Belfius Mons-Hainaut í 1. umferð Evrópukeppni félagsliða, FIBA Europe Cup, en fyrri leikurinn fer fram í DHL-höllinni í kvöld og hefst klukkan 19. Belgarnir höfnuðu í 7. sæti í deildinni heima fyrir á síðasta ári og eru þekktir fyrir að hafa marga bandaríska leikmenn í hópnum.

„Við vitum slatta um þá; það er kosturinn við tækniþróunina að það er auðveldara að afla upplýsinga. Við erum með upplýsingar héðan og þaðan, það hjálpar til að við höfum verið mikið í kringum Belgana og höfum kynnst fólki á þessum slóðum,“ sagði Finnur. Hann er jafnframt aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins sem var í eldlínunni á EM fyrr í þessum mánuði og viðurkenndi fúslega að KR hefði ekki getað æft mikið saman sem lið fyrir leikina.

„Nei, það er eiginlega stutta svarið. A-landsliðsstrákarnir hafa verið á æfingum í viku en auðvitað er margt hægt að gera á viku. Vesenið er kannski að finna taktinn í liðinu, en við erum brattir og höfum trú á að geta gert fína hluti.“

Nánar er fjallað um Evrópuleik KR-inga í íþróttablaði Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert