Belfius of öflugt fyrir KR

Pavel Ermolinskij tekur skot í leiknum í kvöld.
Pavel Ermolinskij tekur skot í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli

KR tapaði fyrir Belfius Mons-Hainaut frá Belgíu 67:88 í fyrstu umferð Evrópubikars karla í körfuknattleik í DHL-höllinni í Vesturbænum í kvöld. 

Belfius reyndist of öflugt fyrir Íslandsmeistara síðustu fjögurra ára en KR-ingum tókst þó að halda spennu í leiknum fram í síðari hálfleik. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 35:31 fyrir belgíska liðið en í þriðja leikhluta komst KR þremur stigum yfir. Staðan var 49:48 fyrir Belfius þegar belgíska liðið náði frábærum kafla og gerði þá út um leikinn. Breyttu þeir stöðunni úr 48:49 í 48:62. 

KR-ingar reyndu að berjast en andstæðingurinn var of öflugur en belgíska liðið teflir fram mjög öflugum Bandaríkjamönnum. Bakvörðurinn Tre Demps skoraði 27 stig og var illviðráðanlegur og Garlon Green hitti úr fjórum þristum í sex tilraunum. Alls setti Belfius niður 12 þrista í 20 tilraunum sem er 60% hittni. KR-ingar hittu hins vegar úr 7 þristum í 35 tilraunum sem er 20% hittni. Hafði þetta skiljanlega miið að segja. 

Bandaríkjamaðurinn Jalen Jenkins komst mjög vel frá sínum fyrsta leik fyrir KR og virðist vera góður leikmaður fyrir íslensku deildina. SKoraði hann 22 stig og tók 16 fráköst. Jón Arnór Stefánsson skoraði 15 stig, gaf 5 stoðsendingar og tók 5 fráköst. Brynjar Þór Björnsson gerði 11 stig en hann og Jón hittu þó ekki vel fyrir utan á heildina litið. Pavel Ermolinskij skoraði 10 stig og tók 9 fráköst. 

Darri Hilmarsson að skora fyrir KR-inga í kvöld.
Darri Hilmarsson að skora fyrir KR-inga í kvöld. mbl.is/Golli
KR 67:88 Belfius opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert