„Mér leið ekkert rosalega vel“

Finnur Freyr Stefánsson.
Finnur Freyr Stefánsson. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er eitthvað sem við stefnum á, ekki spurning,“ sagði Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari karlaliðs KR í körfuknattleik, en liðinu er spáð sigri í Dominos-deildinni í körfuknattleik í vetur. Finnur á von á jafnri og spennandi deild.

„Stólarnir hafa bætt sig mikið milli ára og sama má segja með Grindavík sem bætir við sig stóru púsli með Sigurði Þorsteinssyni. Þessi tvö lið verða gríðarlega sterk og svo er fullt af liðum sem eru rétt fyrir neðan og eiga eftir að blanda sér í toppbaráttuna. Ég held að deildin verði spennandi og ég sé fram á miklar sveiflur,“ sagði Finnur, en hann segir KR eiga nokkuð í land.

„Við erum augljóslega ekki á þeim stað sem við viljum vera með lítinn undirbúning og leikmenn í meiðslum. Við ætlum að bæta okkur jafnt og þétt í gegnum tímabilið, hvernig önnur lið mæta til leiks verður að koma í ljós,“ sagði Finnur.

Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Ljósmynd/Skúli B. Sigurðsson

Jón klárlega frá í einhvern tíma

Jón Arnór Stefánsson meiddist að því er virtist alvarlega gegn Þór Þorlákshöfn í leiknum um meistara meistaranna á sunnudag. Hvernig er staðan á honum?

„Hann fór í skoðun í morgun og ég á eftir að heyra í honum. Hann verður klárlega frá í einhvern tíma, það er bara spurning hversu lengi. Við tökum því bara þegar það kemur og það skiptir mestu að hann nái að jafna sig almennilega enda búið að vera mikil álag á honum í sumar,“ sagði Finnur Freyr, en um er að ræða sömu nárameiðsli og voru að plaga hann í sumar.

„Það small í náranum á sama stað, svo spurningin er hvort það sé tognun eða hvort hann hafi rifið eitthvað eða slíkt kemur bara í ljós,“ sagði Finnur.

Fór ekkert um hann að sjá Jón falla sárþjáðan í gólfið?

„Mér leið ekkert rosalega vel og eins og svo margir hugsaði maður hvort þetta hafi verið hásin eða hné. Kannski er ágætt að þetta sé nári miðað við það, ég veit það ekki. En Jón er mikill keppnismaður og var ósáttur við sjálfan sig í fyrra þar sem hann komst ekki almennilega í gang. Hann ætlaði sér mikið í vetur og ég veit að þetta er mikið áfall fyrir hann, svo ég hef enga trú á öðru en að hann komi sterkari til baka,“ sagði Finnur Freyr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert