Þetta verður hörkukeppni í vetur

Sverrir Þór Sverrisson.
Sverrir Þór Sverrisson. mbl.is/Golli

„Miðað við að vera Íslands- og bikarameistari í fyrra og nú með sama leikmannahóp fyrir utan nýjan Bandaríkjamann þá kemur spáin í sjálfu sér ekki á óvart,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur, í samtali við mbl.is en Keflavík er spáð sigri í Dominos-deild kvenna í körfuknattleik í vetur.

Sverrir á von á því að deildin verði afar jöfn og spennandi.

„Já, ég er alveg klár á því. Miðað við hvernig undirbúningstímabilið hefur verið þá sé ég sex lið sem gætu verið í þessum úrslitakeppnissætum og í mikilli baráttu. Þetta verður hörkukeppni í vetur, það er klárt mál og við þurfum að spila af sama krafti og á síðasta tímabili til þess að vera í efstu sætunum,“ sagði Sverrir.

Hann segir að það kryddi deildina mikið hvað mörg lið teljast sterk og verði í baráttunni.

„Það gerir þetta bara mikið skemmtilegra. Það eru ekki margir leikir eins og var fyrir einhverjum árum í þessari deild að það voru þrjú hrikalega sterk lið sem svo vissu að þegar spilað var við hin liðin að það var ekki séns að þau myndu tapa. Það er bara liðin tíð og nánast í hverri umferð er stál í stál,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert