Geðveikt að setja niður svona skot

Guðbjörg Sverrisdóttir í leik með Val.
Guðbjörg Sverrisdóttir í leik með Val. mbl.is/Árni Sæberg

„Mér líður mjög vel, það er geðveikt að setja niður svona skot og að vinna svona er extra sætt," sagði Guðbjörg Sverrisdóttir, hetja Vals, eftir 70:67-sigur á Skallagrími í 3. umferð Dominos-deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Guðbjörg skoraði þriggja stiga körfu í þann mund sem leiktíminn rann út og tryggði Val sigur. 

„Ég varð að skjóta. Við plönuðum þetta nokkurn vegin svona og ég varð að skjóta, það kom ekki annað til greina."

„Mér fannst spilamennskan nokkuð góð. Við vorum að gera mikið af mistökum en náðum að bæta upp fyrir þau og við unnum leikinn. Það er mjög gott."

Valskonur hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa. Tveir þeirra eru gegn tveimur af bestu liðum síðustu leiktíðar, Keflavík og Skallagrími. 

„Við trúum á að við séum góðar. Við erum í góðu formi og höfum mikla trú. Við byrjuðum að æfa snemma í sumar og við erum búnar að vera duglegar, það er að skila sér."

Guðbjörg segir möguleikana á að Valur geti verið í alvöru toppbaráttu í vetur frekar góða, þó lítið sé búið. 

„Möguleikarnir eru nokkuð góðir. Það eru þrír leikir búnir en við ætlum okkur að komast í úrslitakeppnina og við gerum allt sem við getum til að komast þangað," sagði hún að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert