Bonneau líklega á leið í Stjörnuna

Stefan Bonneau var besti leikmaður Íslandsmótsins 2014-15.
Stefan Bonneau var besti leikmaður Íslandsmótsins 2014-15. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Morgunblaðið hefur áreiðanlegar heimildir fyrir því að Stjörnumenn séu langt komnir með að semja við bandaríska körfuboltamanninn Stefan Bonneau en hann lék síðast með Njarðvík hér á landi við góðan orðstír.

Í samtali við mbl.is vildi Hilmar Júlíusson, formaður körfuknattleiksdeildar Stjörnunnar, ekki staðfesta komu Bonneau eða þá að félagið hafi rætt við hann en sagði þó að Stjarnan hefði skoðað hans mál.

Hilmar staðfesti við mbl.is að enginn leikmaður Stjörnunar væri á leið frá félaginu. Collin Pryor, lék ekki með Stjörnunni í sigri liðsins á KR í gær, var ekki á skýrslu og sagður veikur, sem vakti athygli glöggra.

Ljóst er hins vegar að hann er ekki á förum. Fyrir leiktíðina voru vangaveltur um hvort Stjörnumenn myndu sækja um að Pryor fengi réttindi sem Íslendingur vegna þess hve lengi hann hefði dvalið á landinu en ekkert varð af því. Því er eina spurningin hvort Stjörnumenn ætli sér að hafa tvo erlenda leikmenn í sínum hóp en reglur Íslandsmótsins í körfuknattleik kveða á um að aðeins einn erlendur leikmaður megi vera inni á vellinum hverju sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert