Kári stimplaði sig inn og Stjörnuna út

Kári Jónsson er kominn heim á ný.
Kári Jónsson er kominn heim á ný. mbl.is/Styrmir Kári

Grindavík, Haukar, ÍR, Fjölnir og Breiðablik bættust í gær í hóp þeirra liða sem verða í skálinni þegar dregið verður í 16-liða úrslit Maltbikars karla í körfubolta. Einum leik er ólokið í 32-liða úrslitunum en B-lið Njarðvíkur tekur á móti Skallagrími á fimmtudagskvöld.

Haukar slógu Stjörnuna út með nokkuð sannfærandi hætti í Garðabæ í gær, 90:83. Í liði Hauka var Kári Jónsson sem kominn er heim frá Bandaríkjunum og sýndi að hann mun auðvitað styrkja Haukaliðið mikið. Flautuþristur hans í lok þriðja leikhluta, frá miðju, gerði svo að segja út um leikinn við Stjörnuna en Haukar komust þá í 73:51. Stjörnumönnum tókst þó að klóra í bakkann og vel það, en þeir minnkuðu muninn í sex stig þegar enn voru 46 sekúndur til loka, og fjögur stig þegar um 13 sekúndur voru eftir. Nær komust þeir ekki.

Kári skoraði 16 stig í þessum fyrsta leik sínum og hinn bandaríski Paul Jones átti mjög góðan leik með 22 stig og 9 fráköst, í sínum öðrum leik fyrir Hauka. Stefan Bonneau náði sér hins vegar ekki á strik á þeim 13 mínútum sem hann lék í sínum fyrsta leik fyrir Stjörnuna, en þar var Eysteinn Bjarni Ævarsson stigahæstur með mjög 29 stig og mjög góða nýtingu.

Breiðablik, sem unnið hefur alla þrjá leiki sína í 1. deildinni, sló annað 1. deildar lið, Gnúpverja, út í Kópavogi, 93:77. Grindavík vann FSu 92:72 á Selfossi, ÍR vann Hamar í Hveragerði, 91:73, og Fjölnismenn úr 1. deild skelltu 2. deildar liði Reynis S., 84:44. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert