„Meiðslin“ stöðva gríska undrið ekki lengur

Giannis Antetokounmpo á ferðinni í Boston í nótt.
Giannis Antetokounmpo á ferðinni í Boston í nótt. AFP

Óhætt er að segja að gríska undrið Giannis Antetokounmpo hafi stolið senunni í fyrsta leik Milwaukee Bucks á tímabilinu í NBA-deildinni í körfubolta. Ekki var að sjá að hin meintu hnémeiðsli sem komu í veg fyrir að hann spilaði á EM í september hrjáðu hann lengur.

Mikil umræða var um Antetokounmpo og hugsanleg meiðsli hans eftir að hann dró sig úr gríska landsliðshópnum skömmu fyrir EM, þar sem Grikkland mætti meðal annars Íslandi. Kvaðst hann hafa fundið fyrir sársauka í hné við læknisskoðun en gríska körfuboltasambandið og fleiri töldu fullljóst að forráðamenn Bucks hefðu beitt leikmanninn þrýstingi til að hann eyddi ekki kröftum í að spila á EM.

Í nótt fór Antetokounmpo svo á kostum þegar Bucks unnu Boston Celtics, 108:100. Grikkinn skoraði 37 stig og þar af komu 16 í lokafjórðungnum, og tók 13 fráköst. Hann tók líka góða ákvörðun þegar hann bjó til færi og sendi boltann á Matthew Dellavedova sem setti niður afar mikilvægan þrist og kom Milwaukee í 102:97 þegar 44 sekúndur voru eftir.

Úrslit næturinnar:

Detroit – Charlotte 102:90
Indiana – Brooklyn 140:131
Orlando – Miami 116:109
Washington – Philadelphia 120:115
Boston – Milawukee 100:108
Memphis – New Orleans 103:91
Dallas – Atlanta 111:117
Utah – Denver 106:96
San Antonio – Minnesota 107:99
Phoenix – Portland 76:124
Sacramento – Houston 100:105

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert