Mér finnst við enn þá lélegir

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR.
Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Finnur Freyr Stefánsson, þjálfari KR, var vitaskuld ánægður með að vinna ÍR, 88:78, á heimavelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Hann er hins vegar ansi óánægður með margt í leik sinna manna. 

„Þetta er klárlega skref upp á við eftir einstaklega dapran leik í Garðabænum. Strákarnir svöruðu vel eftir fyrstu fimm mínúturnar og við náðum að komast í vinnugír, fórum að vinna saman og hreyfa boltann betur, þá fannst mér góðir hlutir gerast hjá okkur."

KR-ingar voru með fínt forskot stóran hluta leiks en ÍR minnkaði muninn í tvö stig í fjórða leikhluta. 

„Danero fær allt of mikið pláss, hann er góður leikmaður og hann má ekki fá þetta pláss sem hann fékk í lok þriðja leikhluta. Daði setur svo niður sirkuskörfu og það kveikir í þeim, þeir voru hvattir af frábærum stuðningsmönnum, það ber að hrósa þeim fyrir góða stemningu. Sigurkarl kom með góða vörn og körfur, þetta varð að jöfnum leik. Við náðum að loka vörninni, mikilvægum fráköstum og héldum áfram að sækja á körfuna og fengum auðveldar körfur og kláruðum þetta.“

Eins og áður segir er Finnur ekki ánægður með spilamennsku sinna manna. 

„Ég er ekkert sáttur, mér finnst við enn þá lélegir. Við bættum upp fyrir það með vinnusemi í dag en það er fullt sem við þurfum að laga og gera betur. Blessunarlega er bara október, við verðum að taka það til okkar að leggja meiri vinnu á okkur. Það þýðir ekki að segja að við séum bara lélegir eftir tapleiki, við höfum einfaldlega ekki verið nógu góðir og það er vinna fram undan og vinna sem allir eru tilbúnir að leggja á sig.“

„Þetta eru körfuboltaleikmenn og margir þeirra fá greitt fyrir að spila leiki og margir hafa draumóra um að gera hluti, svoleiðis menn eiga ekki að þurfa hvatningu. Sama með mig, ég á ekki að þurfa hvatningu. Við verðum að leggja á okkur vinnuna og við verðum að láta hlutina gerast fyrir okkur. Við getum fundið fullt af afsökunum en við verðum að leggja meira á okkur,“ sagði Finnur að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert