Verða að gera mikið meira til að vinna KR

Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur í liði ÍR í kvöld …
Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur í liði ÍR í kvöld með 19 stig. mbl.is/Golli

„Leikmennirnir trúðu ekki að við gætum unnið leikinn. Á því augnabliki vorum við ekki góðir í sókn og misstum boltann nokkrum sinnum og KR-ingar skoruðu auðveld stig hinum megin," sagði Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir 88:78-tap gegn KR á útivelli í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld er hann var spurður hvað klikkaði hjá sínum mönnum í lokin. ÍR minnkaði muninn í tvö stig skömmu fyrir leikslok en KR-ingar voru mun sterkari í blálokin. 

Hann var ánægður með baráttu sinna manna undir lokin en vildi sjá meira frá liðinu í gegnum leikinn. 

„Þú verður að eiga mjög góðan leik til að geta unnið KR en því miður tókst það ekki hjá okkur. Við börðumst vel í lokin en ég spyr sjálfan mig hvers vegna við gerðum það ekki frá byrjun. Leikmennirnir verða að gefa mikið meira til að vinna KR á útivelli."

Hann segir leikmenn hafa verið of spennta undir lokin og vill hann sjá sína menn gera betur. 

„Sumir leikmenn urðu yfirspenntir og náðu ekki að halda ró sinni þegar við þurftum á því að halda. Þetta er bara einn leikur og tímabilið er langt og við getum enn bætt okkur. Andstæðingurinn spilar eins vel og við leyfum þeim. Við leyfðum KR of mikið í kvöld," sagði hann að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert