Ekkert breytt en allt öðruvísi

Keflavíkurliðið vann tvöfalt á síðustu leiktíð, öllum að óvörum.
Keflavíkurliðið vann tvöfalt á síðustu leiktíð, öllum að óvörum. mbl.is/Golli

Fyrir ári reiknaði enginn með því að Keflavík ætti eftir að verða Íslands- og bikarmeistari í körfubolta kvenna 2017. Sú varð þó raunin. Ungt og efnilegt lið, undir styrkri stjórn hins sigursæla Sverris Þórs Sverrissonar, sprakk út með eftirminnilegum látum og endaði tímabilið á 3:1-sigri gegn Snæfelli í úrslitum Íslandsmótsins.

Í ljósi þess að lið Keflavíkur er nánast óbreytt frá síðasta tímabili vekur athygli hve illa hefur gengið í upphafi þessarar leiktíðar. Keflavík byrjaði reyndar á að vinna Snæfell á útivelli, en hefur síðan tapað þremur leikjum í röð; gegn Val, nýliðum Breiðabliks og svo Stjörnunni í síðustu umferð. Og ekki bíður auðvelt verkefni annað kvöld við að rétta gengið við, þegar Skallagrímur mætir í TM-höllina.

„Ég hugsa að við séum bara eitthvað smeykar við að tapa. Til dæmis í Breiðabliksleiknum þá náðum við ágætri forystu, en þegar þær fóru að nálgast okkur misstum við þetta alveg niður því við vorum svo hræddar við að tapa. Ég held að þetta sé aðalvandamálið hjá okkur núna,“ segir Thelma Dís Ágústsdóttir, lykilmaður Keflavíkur. Thelma, sem kjörin var besti leikmaður síðasta Íslandsmóts, hefur sjálf byrjað tímabilið ágætlega en hið sama verður ekki sagt um Keflavíkurliðið í heild sinni. Langflestir leikmanna Keflavíkur hafa ekki náð 20 ára aldri, en truflar það unga leikmenn að standa nú í titilvörn?

„Já, kannski aðeins. Við höfum náttúrlega ekki sömu reynslu og eldri leikmenn í sömu stöðu, og kannski er þetta að trufla okkur eitthvað,“ segir Thelma, og vill ekki meina að slegið hafi verið slöku við vegna árangursins síðasta vetur. Hungrið í árangur sé ekkert minna.

Ítarlega er fjallað um lið Keflavíkur í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag, farið yfir sögu þess og goðsögn úr sögu liðsins skoðuð nánar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert