Þurfum að sjá hve langt við höfum náð

Hallveig Jónsdóttir á ferðinni á æfingu landsliðsins í Laugardalshöll í …
Hallveig Jónsdóttir á ferðinni á æfingu landsliðsins í Laugardalshöll í dag. mbl.is/Hari

„Þær eru mjög stórar og sterkar og með mjög gott lið,“ segir Hallveig Jónsdóttir, landsliðskona í körfubolta og leikmaður Vals, um lið Svartfjallalands sem Ísland mætir í fyrsta leik sínum í undankeppni EM í Laugardalshöll á laugardag.

„Ég var að skoða þær [Svartfellinga] aðeins á netinu í gærkvöld og þær líta ekki beint illa út. En við þurfum bara að nýta okkar styrk á móti þessu liði; mæta grimmar og sýna hvað við getum á móti þeim,“ segir Hallveig, en mbl.is ræddi við hana á æfingu í Laugardalshöll í hádeginu.

Hallveig er ein fjögurra Valsara í 15 manna landsliðshópnum sem Ívar Ásgrímsson valdi fyrir leikina við Svartfjallaland og svo Slóvakíu ytra 15. nóvember. Fækkað verður um þrjá leikmenn í hópnum fyrir hvorn leik.

Skiljanlegt að við eigum nokkra leikmenn hér

Hallveig hefur leikið afar vel með Val á tímabilinu og liðið er í toppsæti Dominos-deildarinnar, en þessi 22 ára gamli leikmaður á að baki 10 A-landsleiki:

Hallveig hefur leikið afar vel með toppliði Vals í Dominos-deildinni.
Hallveig hefur leikið afar vel með toppliði Vals í Dominos-deildinni. mbl.is/Eggert


„Ef maður fær að vera í 12 manna hópnum þá er ég ekkert nema spennt og sé fram á að koma með mikið sjálfstraust og öryggi inn í leikina,“ segir Hallveig, en auk hennar eru Ragnheiður Benónísdóttir, Guðbjörg Sverrisdóttir og hin 19 ára Elín Sóley Hrafnkelsdóttir fulltrúar Vals í hópnum:

„Það var ótrúlega skemmtilegt að sjá það. Við höfum spilað rosalega vel og náð vel saman, svo það er alveg skiljanlegt að við séum með nokkra leikmenn hérna. Það er bara flott,“ segir Hallveig, sem tekur undir að hún hafi sjálf bætt sinn leik frá síðustu leiktíð:

„Alveg klárlega. Ég æfði betur í sumar en ég hef gert síðustu sumur, og það hefur líka áhrif á það að ég er með meira sjálfstraust og hausinn er sterkari en áður.“

Þurfum að taka eitt skref í einu

Ljóst er að Ísland hafði ekki heppnina með sér þegar dregið var í riðla fyrir undankeppni EM og leikirnir við Svartfellinga og Slóvaka verða afar erfiðir. Meiri líkur eru á sigri gegn fjórða liðinu í riðlinum, Bosníu. Langtímamarkmið íslenska landsliðsins liggur alveg fyrir; að komast í lokakeppni stórmóts, en það er þolinmæðisverk:

„Ég held að við þurfum einmitt akkúrat að átta okkur á því hvar við vorum fyrir fáeinum árum og hve langt við erum komnar síðan þá. Við þurfum að taka eitt skref í einu og það er alveg skiljanlegt að það geti tekið langan tíma fyrir okkur að komast í lokakeppni stórmóts, en á meðan við tökum framförum í hverri undankeppni og í hverjum leik er þetta bara jákvætt,“ segir Hallveig.

Leikur Íslands og Svartfjallalands hefst kl. 16 á laugardaginn í Laugardalshöll.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert