Elska svona stuðningsmenn

Urald King átti góðan leik fyrir Val í kvöld.
Urald King átti góðan leik fyrir Val í kvöld. Haraldur Jónasson / Hari

Hinn bandaríski Urald King, leikmaður Vals, var að vonum kátur eftir 90:76 sigur á toppliði ÍR í 7. umferð Dominos-deildar karla í kvöld. Mikil stemning var í Hertz-hellinum eins og svo oft áður og hrósaði King stuðningsmönnum ÍR í hástert.

„Við erum búnir að vera heyra um það alla vikuna hvernig stemningin hérna er og ég elska svona stuðningsmenn. Ég er ánægður með liðið og frammistöðuna.“

ÍR-ingar voru að leita að sínum tíunda deildarsigri í röð á heimavelli í kvöld, það hlýtur að hafa verið mikilvægt að byrja vel og slökkva aðeins í stuðningsmannasveit þeirra.

„Algjörlega, það var eitt af okkar markmiðum í vikunni. Þjálfarinn lagði mikla áherslu á að þeir væru búnir að vinna níu í röð og við vildum stöðva það.“

„Eins og þeim hefur verið að ganga á heimavelli þá vissum við að þeir myndu vilja koma út og byrja vel þannig að við ætluðum að sjá til þess að við myndum ekki bara mæta þeim í því heldur gera betur en þeir.“

Valsarar eru nýliðar í deildinni en hafa nú unnið þrjá leiki, þar af tvo í röð, og segir King að mikið búi í leikmannahópnum.

„Ég hef mikla trú á þessu liði, við höfum alltaf haft breiddina í leikmannahópnum en það vantaði kannski aðeins reynsluna í þessari deild, nú þegar það er að koma held ég að okkur muni ganga vel.“

King átti sjálfur frábæran leik í kvöld, skoraði 31 stig, átti 14 fráköst og setti nokkrar stemningstroðslur sem kveiktu vel í áhorfendum. Hann er ánægður með eigin frammistöðu en segist einnig eiga meira inni.

„Mér líður vel, ég átti nokkrar býsna góðar troðslur í kvöld sem liðsfélagar mínir og stuðningsmennirnir voru ánægðir með. Ég þarf bara að halda áfram að gera það sem ég þarf að gera sem leiðtogi og leikmaður til að við höldum áfram að bæta okkur, það á meira eftir að koma frá mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert