„Of margir sem hugsa um rassgatið á sjálfum sér”

Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar.
Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar. Ljósmynd/Facebook

Nýliðar Hattar eru enn án stiga eftir sjö umferðir í Dominos-deild karla í körfuknattleik og í kvöld tapaði liðið á heimavelli fyrir Keflavík, 92:66.

„Ef ég vissi að við værum lélegir í körfubolta þá væri það skýringin, en við höfum séð að þetta er til staðar og það koma góðir kaflar. Það er mér bara lífsins ómögulegt að skilja af hverju menn hætta að gera það sem við gerum vel og fara alltaf í eitthvað djöfulsins einstaklings bull, það er komið nóg af því,” segir Viðar Örn Hafsteinsson, þjálfari Hattar, við mbl.is í kvöld.

Viðar hefur áður talað um að liðið skorti samheldni og liðsheild og sagði það stóran hluta ástæðunnar fyrir tapinu í kvöld.

„Það eru of margir, eða bara allir, á sumum köflum sem ætla bara að gera eitthvað sjálfir og hugsa um rassgatið á sjálfum sér. Við erum fínir á köflum og svo förum við bara í bullið,“ sagði Viðar.

Keflavík hvíldi nýja manninn

Friðrik Ingi Rúnarsson, þjálfari Keflavíkur, var ekki alveg sáttur við sína menn þrátt fyrir að hafa verið yfir í leiknum allt frá fimmtu mínútu og lét vel í sér heyra í leikhléum liðsins.

„Við þurfum að vera agaðri og fylgja betur eftir því sem við leggjum upp með. Ég var að mestu leyti ánægður með varnarleikinn, sóknarleikurinn var bara ekki góður hjá okkur í dag,“ sagði Friðrik við mbl.is.

Nýr erlendur leikmaður Keflavíkur, Stanley Earl Robinson, spilaði einungis 20 mínútur af leiknum.

„Hann er bara ekki í neinu formi, eða langt frá sínu besta formi. Þetta var í rauninni gert til þess að hámarka það sem við fengjum út úr honum og það sem hann fengi út úr því að hlaupa með okkur,“ sagði Friðrik Ingi eftir leikinn en Stanley kom til Íslands í gærmorgun. „Hann á eftir að komast betur inn í hlutina og komast í betra form.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert