Valsarar kunna að refsa

Borche Ilievski, þjálfari ÍR, ræðir við sína menn í kvöld.
Borche Ilievski, þjálfari ÍR, ræðir við sína menn í kvöld. mbl.is/Hari

„Ef þú tapar á heimavelli þá er það vandamál, klárlega. Við vorum búnir að vinna marga í röð hérna en í kvöld virkuðum við stressaðir,“ sagði svekktur Borche Ilievski, þjálfari ÍR, eftir 90:76 tap á heimavelli gegn Val í 7. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta í kvöld.

„Við byrjuðum mjög vel en hættum svo að fylgja leikskipulaginu, sóknarleikurinn var ekki að virka og við urðum stressaðir, tókum slæmar ákvarðanir og fórum í léleg skot.“

Ilievski var ósáttur með að hans menn hafi ekki látið kné fylgja kviði þegar þeir áttu mjög góðan kafla undir lokin og virtust vera að koma með endurkomu áður en þeir fóru aftur að spila afar slakan sóknarleik.

„Ég breytti aðeins byrjunarliðinu sem kannski hróflaði aðeins við taktinum en við áttum tækifæri á að snúa taflinu við í seinni hálfleik en það gekk ekki. Þegar 3-4 mínútur eru eftir minnkum við muninn í sjö stig og förum svo aftur að taka léleg skot. Fyrsta vandamálið var vörnin og það er ólíkt okkur en við vorum líka mjög slakir í sókninni.“

Ilievski hrósaði þó andstæðingnum í hástert og sagði Valsara hafa átt sigurinn skilið.

„Valsarar kunna að refsa og áttu góðan leik. Ég sá mjög vel undirbúið lið hér í kvöld með mikla einbeitingu og ég óska þeim til hamingju með sigurinn, þeir áttu hann skilið í kvöld.“

„Þessi deild er mjög jöfn, allir geta unnið alla og við munum reyna að vinna Val næst en við þurfum fyrst og fremst að læra af mistökum okkar. Næsti leikur er gegn Þór Akureyri og við megum ekki vanmeta neinn andstæðing, ef þú missir einbeitinguna í augnablik í þessari deild þá er þér refsað,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert