„Við erum bara glataðir“

Brynjar Þór Björnsson.
Brynjar Þór Björnsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR í körfuknattleik, var hundsvekktur eftir 81:66-tap Íslandsmeistaranna á heimavelli gegn Haukum í Dominos-deildinni í kvöld. KR hefur nú tapað tveimur deildarleikjum í röð.

„Við erum bara glataðir eins og er,“ sagði Brynjar við mbl.is að leik loknum í kvöld. Haukar voru með forystu nánast frá byrjun og sigur þeirra aldrei í teljandi hættu.

Brynjar hefur engar sérstakar áhyggjur af því að KR hafi nú tapað tveimur deildarleikjum í röð. „Ég hef meiri áhyggjur af því hvernig við töpum,“ sagði fyrirliðinn.

„Það er enginn neisti í þessu. Við erum náfölir eins og myrkrið gefur til kynna. Þeir voru flottir en við leyfðum þeim að leika sinn leik. Við höfum verið linir í haust og lið eru að ganga á lagið á móti okkur,“ sagði Brynjar.

Hvað þarf að gera til að snúa þessu við?

„Ekki vinna titilinn fjögur ár í röð,“ sagði Brynjar og glotti.

„Það er erfitt að finna hvatningu í leik á móti Haukum, með fullri virðingu fyrir þeim. Þeir eru ekki hvatningin sem við þurfum, heldur þurfum við eitthvað meira.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert