Boston á gríðarlegri siglingu

Kyrie Irving var drjúgur á lokakaflanum fyrir Boston.
Kyrie Irving var drjúgur á lokakaflanum fyrir Boston. AFP

Boston Celtics vann í nótt sinn 14. sigur í röð í NBA-deildinni í körfuknattleik þegar liðið bar sigurorð af ríkjandi NBA-meisturum, Golden State Warriors, 92:88.

Boston, sem byrjaði tímabilið með því að tapa fyrstu tveimur leikjum sínum en hefur unnið síðustu 14, lenti um tíma 17 stigum undir en tókst að knýja fram sigur.

Kyrie Irving var drjúgur á lokakaflanum en hann skoraði 11 af 16 stigum sínum á síðustu fimm mínútunum. Jaylen Brown var stigahæstur í liði Boston með 22 stig og Al Harford var með 18. Kevin Durant var atkvæðamestur í liði Golden State með 24 stig en Stephen Curry, sem sneri aftur út á völlinn eftir meiðsli, skoraði aðeins níu stig en hann lenti snemma í villuvandræðum.

James Harden fór á kostum með liði Houston, sem burstaði Phoenix, 142:116. Harden skoraði 48 stig og gaf sjö stoðsendingar.

Úrslitin í nótt:

Boston - Golden State 92:88
Phoenix - Houston 116:142

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert