Spilar sína bestu stöðu hjá Cholet

Haukur Helgi Pálsson
Haukur Helgi Pálsson mbl.is/Árni Sæberg

Haukur Helgi Pálsson kann vel við sig hjá nýju félagi í Frakklandi, Cholet, þar sem hann tekst á við þá áskorun að leika í efstu deild körfuboltans þar í landi. Haukur hefur svo sem ágæta reynslu og samanburð.

Hefur spilað í efstu deild á Spáni og var auk þess um tíma í sterku liði Maryland í NCAA. Haukur segir líkamlega burði leikmanna í frönsku deildinni vera mikla, rétt eins og Martin Hermannsson kom inn á í spjalli við Morgunblaðið á dögunum.

„Hér er meira um mikla íþróttamenn með líkamlega burði í körfuboltanum en á Spáni. Sá hópur er í það minnsta breiðari. En sem deild held ég að sú spænska sé gæðaflokki ofar. Ég held að hún sé ennþá sú besta utan Bandaríkjanna en toppliðin í Frakklandi vinna spænsk lið af og til í Evrópuleikjum en það eru ekki allra bestu spænsku liðin. Í Frakklandi eru engu að síður mjög hæfileikaríkir leikmenn. Frönsku liðin leita mikið til nokkurra stjörnuleikmanna en í spænsku liðunum getur nánast hver sem er tekið af skarið.“

Nokkuð er um hávaxna leikmenn í Cholet og Haukur getur því spilað í sinni bestu stöðu sem léttur framherji, eða þristur eins og það er gjarnan kallað.

„Ég er þristur en ég er stundum notaður í tvistinum (skotbakvörður) ef þeir vilja mæta til leiks með hávaxið lið. Við erum með tvo nokkuð stóra menn og auk þess einn til viðbótar sem myndi teljast hávaxinn fjarki. Á heildina litið erum við með nokkuð hávaxið lið,“ sagði Haukur sem þurfti nokkra leiki til að komast almennilega inn í leikstíl liðsins enda kom hann beint úr EM í Finnlandi í stuttan undirbúning áður en deildin hófst.

Sjá allt viðtalið við Hauk Helga í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert