Vorum fullværukærir í lokin

Matthías Orri Sigurðarson.
Matthías Orri Sigurðarson. mbl.is/Golli

Matthías Orri Sigurðarson, leikmaður ÍR, var kampakátur í leikslok eftir öruggan sigur á Þór í Íþróttahöllinni á Akureyri í Dominos-deild karla í körfuknattleik kvöld, 89:71. ÍR-ingar voru að jafna sig eftir óvænt tap gegn Val í síðustu umferð og komu gríðarlega grimmir til leiks:

„Við komum rosalega flatir og andlausir út í leikinn gegn Val og vorum mjög svekktir með sjálfa okkur. En það sást vel í kvöld hvað við lögðum upp með og við mættum tilbúnir sem heild. Við tvístruðumst rosalega upp á móti Val þannig að við vorum svakalega einbeittir í dag. Mér fannst við nánast drepa þá andlega  í 2. leikhluta og ég er ánægður með spilamennskuna,“ sagði Matthías við blaðamann mbl.is eftir leik.

Sigurinn var á endanum ekki nema 18 stig en það stefndi í stórsigur á tímabili: „Já við vorum fullværukærir hérna í lokin og leyfðum þeim að æsa okkur aðeins upp. Það skipti svosem ekki öllu máli því þessi leikur var búinn snemma í þriðja leikhluta,“ sagði Matthías en ÍR leiddi á tímabili með 33 stigum: „Þeir voru flottir þessir ungu strákar hjá Þórsliðinu, mikið hrós til þeirra hvernig þeir kláruðu þennan leik.“

ÍR-ingar naga sig væntanlega í handarbökin yfir að hafa tapað þessum leik gegn Val en þeir eru með 12 stig, sex sigra og tvö töp, en aðeins Tindastóll hefur tapað færri leikjum:

„Við eigum eftir tvo heimaleiki fyrir áramót. Það væri flott að vinna tvo af síðustu þremur fyrir áramót og vera við toppinn þá. Það er ekkert annað í boði en stefna á að vera við toppinn. Við erum í öðru sæti eins og er og okkur finnst við nógu góðir til þess að vera þar,“ sagði Matthías að lokum áður en hann dreif sig inn í klefa en gamla góða rútuferðin beið hans heim í Breiðholt.

Höfðum ekki gaman af körfubolta í kvöld

Júlíus Orri Ágústsson, einn efnilegasti leikmaður landsins í liði Þórs, var að vonum niðurlútur eftir 18 stiga tap gegn ÍR. Júlíus var þó á tímabili einn af fáum leikmönnum Þórs með lífsmarki og skoraði 13 stig í leiknum og gaf sex stoðsendingar.

„Við byrjuðum þetta bara illa og við höfðum ekkert gaman af því sem við vorum að gera. Þegar við lendum í því gengur þetta ekki nógu vel,“ sagði Júlíus við mbl.is að leik loknum í kvöld. Blaðamaður mbl.is getur þó ekki annað en hrósað hinum 16 ára pilti fyrir að mæta í viðtal og svara fyrir tapið í kvöld.

Þórsarar komu með gott áhlaup undir lok leiksins og sýndu loks sitt rétta andlit: „Þegar kom smá barátta og okkur fannst gaman að spila þá kom þetta. Við komum brjálaðir upp völlinn og smá stemning í liðið, þá er þetta allt annað,“ sagði Júlíus og bætti við: „Við erum svekktir að ná ekki lengri köflum þar sem við spilum svona. Við getum spilað við öll lið og við vitum það. Við misstum bara hausinn hérna í dag og þetta var ekki nógu gott.“

Þór vann síðast Hött frá Egilsstöðum 26. október síðastliðin og er því farið að lengja eftir næsta sigri: „Við höfum tvær vikur núna til þess að vinna í þeim atriðum sem við þurfum að laga og við ætlum að reyna að vinna þá þrjá leiki sem eru fram að áramótum,“ sagði Júlíus að lokum en næsti leikur Þórs er gegn Val eftir sléttar tvær vikur á Hlíðarenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert