Lúxusvandamál í Vesturbænum

Kári Jónsson og félagar í Haukum unnu stórsigur á Njarðvík …
Kári Jónsson og félagar í Haukum unnu stórsigur á Njarðvík í áttundu umferðinni. mbl.is/Hari

Áttunda umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik var nokkuð sérkennileg að því leyti að fyrirfram átti maður von á mörgum jöfnum og spennandi leikjum en það varð engan veginn raunin. Allir þeir leikir sem áttu að vera hörkuleikir unnust sannfærandi og voru nánast búnir áður en fjórði og síðasti leikhluti hófst. Það var helst leikurinn í gærkvöldi í Þorlákshöfn sem bauð upp á smáspennu.

Dabbi kóngur (Davíð Arnar Ágústsson) gerði sér grein fyrir mikilvægi þessa leiks fyrir Þór og henti í fjóra mikilvæga þrista. Þegar Dabbi kóngur er heitur þá vinna Þórsarar. Þá gekk Þórsurum einnig best þegar hann var inná. Þær mínútur sem hann spilaði vann Þór með 21 stigi. Hann fékk þetta virðulega nafn þegar ég þjálfaði hann í yngri flokkum Þórs í höfuðið á ritstjóra Morgunblaðsins sem var alltaf kallaður þessu nafni í minni sveit.

Unnu án landsliðsmanna

Það var mjög athyglisverður leikur í Keflavík þar sem KR var í heimsókn. Í fyrsta skipti í langan tíma mætti KR til leiks sem ólíklegri aðilinn til að vinna leikinn. Keflavík hefur verið að spila virkilega vel í vetur þrátt fyrir smá vandræðagang með kanaígildið. Ástæðan er að í KR-liðið vantaði þrjá landsliðsmenn. Jón Arnór Stefánsson og Pavel Ermolinskij eru meiddir og þá var fyrirliðinn, Brynjar Þór Björnsson, veikur.

Þessi listi er ekki tæmandi því leikmenn á borð við Arnór Hermannsson og Vilhjálm Kára Jensson eru líka meiddir. Það hefur hugsanlega gert heimamenn eitthvað værukæra en það er algjörlega ný staða fyrir KR að vera ekki sigurstranglegri aðilinn. Í Vesturbænum þekkja menn ekkert annað en sigur og það er ætlast til að liðið vinni alla leiki og helst stórt. KR lifir í þeim veruleika að hafa öllu að tapa og að engu að vinna, því þeir eiga alltaf að vera með besta liðið. Þrátt fyrir að vera án lykilmanna átti KR sinn besta leik í vetur að mínu mati.

Ítarlegt yfirlit Benedikts Guðmundssonar, körfuboltasérfræðings Morgunblaðsins, má finna í íþróttablaðinu sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert