Tékkar hittu mun betur

Hlynur Bæringsson, fyrirliði Íslands, skorar gegn Slóveníu á EM í …
Hlynur Bæringsson, fyrirliði Íslands, skorar gegn Slóveníu á EM í haust. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Tékkland hafði betur gegn Íslandi 89:69 í undankeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik í Pardubice í Tékklandi í dag.

Tékkar tóku forystuna strax í upphafi og voru yfir út leikinn. Munurinn var þó minni lengst af en lokatölurnar. Tékkland hafði yfir 39:30 að loknum fyrri hálfleik. Í þriðja leikhluta minnkaði Ísland muninn niður í sex stig og í upphafi síðasta leikhlutans var munurinn sjö stig. En þá skildi leiðir. Tékkarnir héldu áfram að hitta vel og náðu góðu forskoti. Fyrir vikið lönduðu þeir öruggum sigri og spennan var farin úr leiknum þegar nokkrar mínútur voru eftir. 

Mikill munur var á þriggja stiga hittni liðanna. Ísland hitti aðeins úr 4 af 24 fyrir utan þriggja stiga línuna. Þrír af þessum fjórum komu í síðasta leikhlutanum. Er það aðeins 16% hittni og eitthvað sem íslenska landsliðið má bara alls ekki við gegn sterkum andstæðingum. Tékkar hittu ekki vel í upphafi leiks en hrukku síðan heldur betur í gang fyrir utan og hittu úr 9 þristum af 22 þegar uppi var staðið sem er 40% nýting. 

Tékkar áttu greiðan aðgang að fráköstum í fyrri hálfleik og tóku því miður mörg sóknarfráköst. En íslensku landsliðsmönnunum tókst að laga þann þátt leiksins í síðari hálfleik. 

Martin Hermannsson var langstigahæstur með 29 stig. Átti því frábæran leik í sókninni og hitti úr öllum 15 vítum sínum. Ísland hitti úr 23 af 24 vítum sínum sem vó aðeins upp á móti slæmri nýtingu í þrigga stiga skotunum. Kristófer Acox átti líklega sinn besta A-landsleik til þessa. Fékk stórt hlutverk og skilaði því vel í vörn og sókn. Skoraði 12 stig, tók 8 fráköst, stal boltanum tvisvar og varði tvö skot. Hinn tvítugi Kári Jónsson sýndi úr hverju hann er gerður í sínum fyrsta mótsleik fyrir A-landsliðið. Skoraði 9 stig en hann setti niður 3 af þeim 4 þristum sem Ísland gerði í leiknum.

Því miður voru hins vegar margir leikmenn Íslands kaldir í leiknum. Haukur Helgi Pálsson náði sér ekki á strik í sókninni og þar gekk nánast allt á afturfótunum hjá honum enda var hann án stiga. Slíkt er afar sjaldgæft hjá honum og nokkuð sem Ísland má ekki við. Haukur stóð fyrir sínu í vörninni eins og jafnan áður.  

Þetta er fyrsti leikur Íslands í keppninni en Búlgaría og Finnland eru einnig í riðlinum. Ísland fær Búlgaríu í heimsókn í Laugardalshöllina á mánudagskvöldið kemur.

Lið Íslands: Martin Hermannsson, Axel Kárason, Jakob Örn Sigurðarson, Hlynur Bæringsson, Kári Jónsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Sigtryggur Arnar Björnsson, Logi Gunnarsson, Kristófer Acox, Ólafur Ólafsson, Haukur Helgi Pálsson, Brynjar Björnsson.

Lið Tékklands: Patrik Auda, Tomas Vyoral, Pavel Pumprla, Vojtech Hruban, Viktor Pulpan, Blake Schilb, Ondrej Balvín, Jakub Sirina, Martin Peterka, Jaromir Bohacik, Michal Marers, Martin Kriz.

Tékkland 89:69 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert