Innkoma Tryggva mun breyta miklu

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Martin Hermannsson, landsliðsmaður í körfuknattleik, var brattur fyrir leik Íslands og Búlgaríu í undankeppni HM sem fram fer í Laugardalshöll í kvöld þegar mbl.is tók hann tali eftir æfingu í gær.

„Liðin í riðlinum eru öll frekar jöfn finnst mér og það geta allir unnið alla. Það þarf bara að hitta á góðan dag og gera betur en í síðasta leik,“ sagði Martin, en Ísland tapaði fyrir Tékkum ytra á föstudag, 89:69. Nú mun hinn stóri og stæðilegi Tryggvi Snær Hlinason hins vegar vera með og það breytir miklu.

„Það er fullt sem breytist með honum og fullt mjög jákvætt, sem mun auðvelda okkur hlutina í vörninni. Hann getur stigið þessa stóru menn út og eigum að hafa meiri orku á morgun og það mun hjálpa okkur,“ sagði Martin, en hvað tekur hann út úr Tékkaleiknum til að byggja á gegn Búlgörum í kvöld?

„Við vorum að fá fullt af góðum skotum sem voru bara ekki að detta. Við þurfum því að halda áfram því sem við vorum að gera og það að fá Tryggva inn í liðið mun hjálpa mikið. Það mun opna meira fyrir okkur bakverðina og einnig hjálpa okkur varnarlega með fráköstin, sem var erfitt í síðasta leik. Tryggvi mun breyta miklu.“

Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Landsleikjaglugginn mjög jákvæður

Þetta er í fyrsta sinn sem leikið er í svokölluðum landsleikjagluggum á miðju tímabili, en venjuleg hafa undankeppnir landsliða verið leikin í ágúst áður en tímabilin hefjast.

„Þetta er svolítið skrítið, ég viðurkenni það, en held að þetta sé bara gott. Ég er rosalega hrifinn af þessu fyrirkomulagi, bæði gaman að koma í leikformi í landsliðið og líka til að brjóta tímabilið upp. Það er öðruvísi að spila með landsliðinu, en að fá að gera það tvisvar yfir tímabilið er mjög gaman og ég er mjög hrifinn af þessu,“ sagði Martin.

Hann gekk í raðir Chalons-Reims í frönsku A-deildinni í sumar eftir að hafa spilað í B-deildinni með Charleville í eitt ár. Hvernig er stökkið á milli deilda?

„Það er mikill munur á deildunum þar sem eru fleiri stórir, sterkir og fljótir leikmenn. Þetta er meiri atvinnumannadeild og það tekur tíma fyrir litla Íslendinginn að spila á móti svona sterkum leikmönnum. En mér finnst ég vera að bæta mig helling og ég held að þetta hafi verið hárrétt skref í stiganum sem ég er að reyna að klífa,“ sagði Martin Hermannsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert