Treysti þjálfaranum til þess að stjórna

Tryggvi Snær Hlinason í leiknum við Búlgaríu í kvöld.
Tryggvi Snær Hlinason í leiknum við Búlgaríu í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tryggvi Snær Hlinason átti góða innkomu í íslenska landsliðið í körfuknattleik í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Búlgaríu, 77:74, í undankeppni heimsmeistaramótsins í Laugardalshöll. Ísland fór þar illa að ráði sínu undir lokin eftir að hafa verið í góðri stöðu lengst af.

„Við héldum að við værum með þetta í góðum höndum þegar við vorum komnir 10 stigum yfir. Þetta var frekar öruggur leikur, lítið um áhlaup og slíkt heldur komust þeir frekar hægt og rólega fram úr. Við misstum þá svo frá okkur í lokin og því miður þá voru þeir á undan okkur á rétta augnablikinu,“ sagði Tryggvi við mbl.is.

Hann segir að Búlgararnir hafi spilað nokkurn veginn eins og íslenska liðið hafði reiknað með.

„Þeir voru svipaðir, voru mjög grimmir og réðust alltaf á körfuna. Við brutum allt of oft á þeim þegar við þurftum þess ekki. Þegar þeir voru komnir í vandræði þá kom þriðji maðurinn í hjálparvörnina og braut á honum, og þeir náðu að refsa í kjölfarið,“ sagði Tryggvi.

Tryggvi var búinn að fara mikinn í vörninni en spilaði aðeins í rúmar tvær mínútur í fjórða leikhlutanum þegar mesti æsingurinn var. Hvernig stóð á því?

„Ég treysti þjálfaranum fullkomlega til þess að stjórna því. Maður vill auðvitað alltaf spila, en hann valdi að hafa reynsluna inni á og það er oft gáfulegast að nýta reynsluna í lokin. Það er bara svoleiðis,“ sagði Tryggvi Snær Hlinason við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert