Fimmti sigur Hauka í röð

Haukamaðurinn Paul Anthony Jones með boltann gegn ÍR í kvöld.
Haukamaðurinn Paul Anthony Jones með boltann gegn ÍR í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

Haukar hafa unnið fimm deildarleiki í röð eftir 97:87 á ÍR Ásvöllum í 10. umferð Dominos-deildar karla í körfuknattleik. Aðeins var um þriðja tap ÍR-inga að ræða. 

Haukar eru á mikilli siglingu og hafa undanfarið lagt að velli KR, Njarðvík og Stjörnuna auk ÍR. Haukar léku frábærlega í fyrri hálfleik og sýndu þá hvers liðið er megnugt þegar sóknarleikurinn gengur smurt. Haukar skoruðu 58 stig í fyrri hálfleik og höfðu þá átján stiga forskot. Kári Jónsson hafði þá skorað fimm þriggja stiga körfur. 

ÍR-ingar voru á toppnum ásamt Tindastóli fyrir þessa umferð og ekki að ástæðulausu. ÍR-ingar eru ólseigir og létu sér ekki muna um að vinna upp átján stiga forskotið á fyrstu fimm mínútum síðari hálfleiks. Jöfnuðu þeir 61:61. En ÍR tókst aldrei að komast yfir og hvort sem það hafði sálræn áhrif eða ekki þá voru Hafnfirðingar alla vega beittari í síðasta leikhlutanum. 

Kári var stigahæstur með 29 stig og þau gerði hann í 1., 2. og 4. leikhluta. Paul Anthony Jones tók af skarið þegar á þurfti að halda og gerði 23 stig. Er mjög nýtinn á stökkskotin sem bjóðast innan teigs.  En eins og stundum undanfarið var það breiddin sem sagði til sín í sókninni hjá Haukum því tíu leikmenn skoruðu fyrir liðið. 

Ryan Taylor var að venju drjúgur og skoraði 30 stig fyrir ÍR. Matthías Orri Sigurðarson var með 20 stig og Danero Thomas skoraði 19 en hann hittnaði í þriðja leikhluta þegar ÍR náði frábærum kafla. 

Bæði liðin hafa unnið sjö af fyrstu tíu leikjum sínum eins og Tindastóll og eru í toppbaráttunni sem er orðin þéttari eftir kvöldið. 

Haukar 97:87 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert