Flautukarfa Dags tryggði Grindavík sigur

Dagur Kár Jónsson var hetja Grindavíkur í kvöld.
Dagur Kár Jónsson var hetja Grindavíkur í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Grindavík vann ótrúlegan 90:89-sigur á Valsmönnum eftir æsispennandi lokamínútur er liðin mættust í Dominos-deild karla í körfubolta í kvöld. Dagur Kár Jónsson skoraði sigurkörfuna, um sekúndu fyrir leikslok. 

Grindvíkingar fóru ágætlega af stað og voru nokkrum stigum yfir á fyrstu mínútum leiksins. Rashad Whack var sérstaklega áberandi og skoraði hann fyrstu átta stig heimamanna. Staðan eftir 1. leikhluta var 24:21, Grindavík í vil.

Leikurinn var jafn og spennandi framan af í 2. leikhluta en eftir því sem leið á hann náðu Valsmenn meiri tökum á leiknum, þökk sé magnaðri þriggja stiga nýtingu þeirra undir lok leikhlutans. Staðan í hálfleik var því 54:45, Valsmönnum í vil.

Grindvíkingar komu grimmir inn í þriðja leikhluta og minnkuðu muninn í upphafi hans. Valsmenn svöruðu hins vegar gríðarlega vel og var munurinn orðinn 11 stig þegar 13 mínútur voru til leiksloka. Grindvík minnkaði muninn í 69:61 og þannig var staðan fyrir síðasta leikhlutann.

Ólafur Ólafsson minnkaði muninn í 76:73 þegar 4. leikhluti var tæplega hálfnaður og svo í tvö stig, 82:80, þegar rétt tæplega þrjár mínútur voru eftir af leiknum. Ólafur skoraði þá þriggja stiga körfu og kom Grindavík í 83:82. Eftir æsispennandi lokamínútur voru það svo Grindvíkingar sem höfðu betur. 

Grindavík 90:89 Valur opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert