„Mikill vill meira“

Sveinbjörn Claessen
Sveinbjörn Claessen mbl.is/ Hari

Herra ÍR, Sveinbjörn Claessen, segist vera nokkuð sáttur við byrjun ÍR í Dominos-deildinni en liðið hefur unnið sjö af fyrstu tíu leikjunum. Hann er samt þeirrar skoðunar að ÍR-liðið geti gert enn betur.  

„Jú jú ég er nokkuð sáttur en ég hefði þó viljað vera með níu sigra. Þetta gengur ágætlega en mikill vill meira. Það á við um mig og okkur ÍR-inga. Við viljum meira og okkur líður eins og sigrarnir gætu verið fleiri á þessum tímapunkti. En þetta er staðan og við ætlum að klára þetta ár með stæl. Framundan er bikarleikur og síðan leikur í Keflavík,“ sagði Sveinbjörn þegar Mbl.is ræddi við hann í kvöld þar sem ÍR tapaði fyrir Haukum 97:87 á Ásvöllum í 10. umferðinni. Haukar voru beittari í síðasta leikhlutanum eftir sveiflukenndan leik. 

„Við brenndum örugglega af 10 til 15 vítum. Við þurfum að búa til nefnd til að skoða hvers vegna við brenndum af svo mörgum vítum. Engu máli skipti hver fór á línuna. Kári var erfiður í fyrri hálfleik en okkur tókst að slökkva í því í síðari hálfleik. Þeir skoruðu 58 stig í fyrri hálfleik og þetta var erfitt. Við unnum það upp í þriðja leikhluta og náðum því en þeir höfðu bara betur í síðasta leikhlutanum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert