Sér möguleikana í Haukaliðinu

Finnur Atli Magnússon
Finnur Atli Magnússon mbl.is/Árni Sæberg

Finnur Atli Magnússon segir lið Hauka ekki verið orðið fastmótað meistaralið en efniviðurinn í leikmannahópnum sé til staðar. 

Finnur Atli varð Íslandsmeistari með KR og þekkir þá stöðu að vera í meistaraliði. Mbl.is spurði hann í kvöld eftir 97:87 sigurinn á ÍR hvort hann upplifði það nú hjá Haukum að vera í liði sem gæti orðið Íslandsmeistari en Haukar hafa unnið fimm leiki í röð. 

„Við erum ekki alveg komnir á þann stað en ég sé möguleikana. Persónulega finnst mér að við þurfum að vera beittari í vörninni. Við erum að finna út hvernig við viljum verjast „pick and roll“. Við þurfum aðeins að vinna meira í því. Við gætum einnig pressað meira vegna þess að við erum með breiðan hóp. Við gætum náð að þreyta lykilmenn í öðrum liðum með því að skiptast á að pressa þá,“ sagði Finnur og breiddin í leikmannahópi Hauka skipti máli í sigrinum á ÍR í kvöld að hans mati. Leikurinn var sveiflukenndur því Haukar höfðu átján stiga forskot að loknum fyrri hálfleik en ÍR jafnaði í þriðja leikhluta. Haukar áttu svo meira eftir á tanknum í síðasta leikhlutanum.

„Við vissum að þeir yrðu brjálaðir í þriðja leikhluta. Við hittum gríðarlega vel í fyrri hálfleik sem gaf okkur þetta forskot. Við komum svolítið værukærir út í síðari hálfleikinn og ÍR-ingar hittu úr mörgum erfiðum skotum. En okkur tókst einhvern veginn að halda smá forskoti og gáfum það aldrei alveg frá okkur. Við erum með breiðan hóp og það hefur verið okkar styrkleiki í vetur. Þegar þeir þurftu að skipta inn á með okkar skiptingum þá misstum við aldrei forskotið,“ sagði Finnur sem skoraði 6 stig, gaf 5 stoðsendingar og tók 4 fráköst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert