Valsarar sannfærandi gegn Snæfelli

Berglind Gunnarsdóttir og Ragnheiður Benónísdóttir berjast um boltann í kvöld. …
Berglind Gunnarsdóttir og Ragnheiður Benónísdóttir berjast um boltann í kvöld. Rebekka Rán Karlsdóttir er lengst til hægri. mbl.is/Hari

Valur og Snæfell mættust á Hlíðarenda í Dominos-deild kvenna í körfubolta í kvöld og voru það Valskonur sem báru sigur úr býtum, 88:73, og styrktu þar með stöðu sína á toppi deildarinnar.

Liðin mættust á sunnudaginn var í átta liða úrslitum Maltbikarsins og bar Snæfell sigur úr býtum í hörku einvígi þar sem Berglind Gunnarsdóttir tryggði sigurinn með flautukörfu, 75:73. Valsarar höfðu þar áður unnið deildarviðureign liðanna á Stykkishólmi og þeir byrjuðu betur í Valshöllinni í kvöld.

Alexandra Petersen var sem fyrr öflug í liði Vals en sóknarleikur liðsins gekk vel lengst af. Snæfellingar áttu við gamalkunn vandamál að stríða en leikmannahópurinn er þunnskipaður og sterkir leikmenn frá vegna meiðsla. Kristen Denise McCarthy var afar drjúg fyrir sitt lið og sömuleiðis var bikarhetjan Berglind öflug en gestunum vantaði fleiri leikmenn til að taka af skarið. Valsarar voru með nokkuð sanngjarna sjö stiga forystu í hálfleik, 43:36.

Snæfellingar urðu fyrir áfalli í upphafi síðari hálfleiks þegar bera þurfti Söru Diljá Sigurðardóttur af velli eftir að hún meiddist og riðlaðist varnarleikur liðsins töluvert eftir það. Valsarar gengu á lagið og virtust ætla að stinga af en Snæfellingar bitu frá sér, fyrst og fremst þökk sé þeim Berglindi og McCarthy sem voru með 26 og 19 stig í kvöld.

Valur var 65:57 yfir fyrir fjórða leikhlutann og þrátt fyrir smá áhlaup Snæfellinga náðu heimamenn að bæta við forystuna undir lok leiks. Með sigrinum tekst Valskonum að styrkja stöðu sína á toppnum og jafnframt hefna fyrir bikartapið en liðið er nú með 20 stig. Snæfellingar eru áfram í 7. sæti með 10 stig.

Valur 88:73 Snæfell opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert