„Svenni kann að keyra menn í gang“

Sæþór Elmar Kristjánsson (14).
Sæþór Elmar Kristjánsson (14). mbl.is/ Hari

Sæþór Elmar Kristjánsson var sjóðandi heitur í Seljaskólanum í kvöld og skoraði sjö þriggja stiga körfur og þurfti aðeins til þess níu tilraunir þegar ÍR sigraði Keflavík 96:92 eftir framlengdan leik. 

„Mér var bara sagt að hika ekki þegar ég fengi boltann í skotstöðu og fór eftir því. Ég hef ekki sett skotin niður að ráð í leikjunum hingað til en þau duttu í kvöld og gera það vonandi áfram í leikjunum eftir áramót,“ sagði Sæþór þegar mbl.is spjallaði við hann að leiknum loknum. 

Í fyrri hálfleik gleymdi Sæþór sér einu sinni í vörninni og var tekinn býsna harkalega á teppið af leiðtoga ÍR-inga, Sveinbirni Claessen. Spurður um hvort atvikið hafi kveikt í honum svaraði Sæþór því játandi. „Það kveikti svolítið í mér. Þegar hann öskrar á mann þá keyrir það mann í gang og Svenni kann að keyra menn í gang. Líklega er enginn betri í því vegna þess að Svenni veit hvað hann á að segja," sagði Sæþór við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert