Ísland einu skoti og einu stigi frá sæti á HM

Ísland var aðeins einu stigi frá því að komast í lokakeppni heimsmeistaramóts karla í körfuknattleik í fyrsta skipti eftir að liðið vann magnaðan sigur á Georgíu í Tbilisi í dag, 80:77.

Ísland þurfti fjögurra stiga sigur til að fara á HM þar sem Georgía var tveimur stigum yfir fyrir lokaumferðina og hafði unnið fyrri leikinn í Laugardalshöllinni með þriggja stiga mun.

Leikurinn var jafn frá fyrstu mínútu og liðin voru með forystuna til skiptis. Staðan var jöfn eftir fyrsta leikhluta, 19:19, og Ísland var stigi yfir í hálfleik, 43:42, eftir að gott færi til að ná sex stiga forskoti í lokin nýttist ekki.

Sami slagur var áfram í síðari hálfleiknum. Þriðji leikhluti var hnífjafn og Ísland yfir eftir hann, 62:60.

Georgía komst yfir, 66:65, en Ísland svaraði því með fimm stigum og var komið í 70:66 þegar fimm mínútur voru eftir. Fjögurra stiga forskotinu náð.

Spennan var gríðarleg á lokamínútu leiksins. Georgía var yfir, 76:75, en Ísland komst þremur stigum yfir, 80:77, þegar 10 sekúndur voru eftir af leiknum.

Shengelia hitti ekki úr tveimur vítaskotum fyrir Georgíu. Ísland átti lokasókn leiksins og henni lauk með þriggja stiga skoti Elvars Más Friðrikssonar í blálokin. Boltinn dansaði á körfuhringnum en fór ekki ofan í. Georgíumenn náðu frákastinu og fögnuðu gríðarlega þegar flautað var af. Þeir fara á HM en Ísland missir af því með eins litlum mun og mögulegt var.

Stig Íslands: Elvar Már Friðriksson 25, Jón Axel Guðmundsson 12, Tryggvi Snær Hlinason 11, Sigtryggur Arnar Björnsson 8, Kári Jónsson 7, Kristófer Acox 5, Haukur Helgi Pálsson 5, Ægir Þór Steinarsson 4, Hlynur Bæringsson 3.

Stig Georgíu: Giorgi Shermadini 23, Tornike Shengelia 20, Thaddus McFadden 17, Duda Sanadze 6, George Tsintsadze 5, Rati Andronikashvili 3, Kakhaber Jintcharadze 3.

Georgía 77:80 Ísland opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert