Ýmsir möguleikar hjá íslenska landsliðinu á ÓL

Ekki liggur fyrir við hverja Guðjón Valur Sigurðsson og samherjar …
Ekki liggur fyrir við hverja Guðjón Valur Sigurðsson og samherjar hans í íslenska landsliðinu leika í 8-liða úrslitum Ólympíuleikanna. Ýmsir kostir eru í stöðunni. Brynjar Gauti

Íslenska landsliðið í handknattleik getur lent í fyrsta, öðru eða þriðja sætis B-riðils handknattleikskeppni Ólympíuleikanna, allt eftir því hver úrslit viðureignar Dana og Þjóðverja verða en leikur liðanna hófst nú klukkan ellefu.

Danir hafa unnið fjórar af síðustu fimm viðureignum sínum við Þjóðverja á handknattleiksvellinum. Síðast áttust þjóðirnar við á Evrópumótinu í Noregi í byrjun ársins og þá höfðu Danir betur, 26:25.

Vinni Danir Þjóðverja liggur fyrir að íslenska landsliðið hafnar í þriðja sæti riðilsins með jafn mörg stig og Danir og Suður Kóreubúar, sex talsins. Þjóðverjar enda í fjórða sæti með 5 stig. Suður Kórea verður í efsta sæti sökum þess að lið þeirra vann bæði Dani og Íslendinga. Þá mun annað sæti riðilsins ráðast á samtals úrslitum í innbyrðis viðureignum þjóðanna þriggja. Þar hafa Danir betur sökum þess að þeir skoruðu 30 mörk gegn Suður Kóreu en Íslendingar aðeins 21.

Verði jafntefli í viðureign Dana og Þjóðverja þá enda Íslendingar, Suður Kóreumenn og Þjóðverjar jafnir með 6 stig. Danir komast áfram þótt þeir hafi fimm stig eins og Rússar vegna sigurs á Rússum í riðlakeppninni.  Þá kemur upp sú staða  að íslenska liðið vinnur riðilinn, Þjóðverjar verða í öðru sæti og Suður Kórea í þriðja sæti. Ástæðan er sú að þegar litið er til innbyrðis leikja liðanna þriggja þá hafa þau öll tvö stig. Suður Kórea vann Ísland, Þjóðverjar unnu Suður Kóreu og Íslendingar lögðu Þjóðverja. Þá kemur að því að markatalan í leikjum þjóðanna innbyrðis ræður ferðinni. Þar stendur íslenska liðið best að vígi með þrjú mörk í plús eftir fjögurra marka sigur á Þjóðverjum að frádregnu eins marks tapi fyrir Suður Kóreu. Markatala Þjóðverja stendur á sléttu. Suður Kórea verður með neikvæða markatölu sem nemur þremur mörkum, eftir eins marks sigur á Íslendingum og fjögurra marka tap fyrir Þýskalandi.

Þriðji möguleikinn er að Þjóðverjar vinni Dani. Þá verða Þjóðverjar efstir í riðlinum með 7 stig. Suður Kórea verður í öðru sæti með 6 stig eins og Íslendingar en vegna þess að Suður Kórea vann innbyrðis leik þjóðanna enda þeir í öðru sæti. Rússar fá þá fjórða sætið með 5 stig en Evrópumeistarar sitja eftir með sárt ennið.

Í A-riðli bendir flest til að Spánverjar hafna í fjórða sæti en Króatar verma þriðja sætið. Pólverjar geta krækt í efsta sætið á eftir vinni þeir Frakka. Þá enda þjóðirnar jafnar í efsta sæti og Pólverjar krækja í efsta sætið á innbyrðis sigri. Tapi Pólverjar fyrir Frökkum ræðst röðin liðanna í öðru til fjórða á innbyrðis leikjum.

Framhaldið í 8-liða úrslitum á aðfaranótt miðvikudag og fyrrihluta miðvikudagsins verður sem hér segir:

1. sæti í A -riðli gegn 4. sæti í B-riðli (04:00)

2. sæti í A -riðli gegn 3. sæti í B-riðli (06:15)

3. sæti í A-riðli (Króatía) gegn 2. sæti í B-riðli (10:00)

4. sæti í A-riðli (Spánn) gegn 1. sæti í B-riðli (12:15)

Leiktímar innan sviga er íslenskur tími og upplýsingar eru fengnar af heimasíðu Alþjóða handknattleikssambandsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert