Harper fyrst í 100 metra grind

Dawn Harper var ánægð með gullverðlaunin sín.
Dawn Harper var ánægð með gullverðlaunin sín. Reuters

Dawn Harper frá Bandaríkjunum varð í dag ólympíumeistari í 100 metra grindahlaupi þegar hún bætti sinn besta árangur í greininni og hljóp á 12,54 sekúndum. Fjórir keppendur í hlaupinu hafa náð betri tíma á árinu.

Sally McLellan frá Ástralíu varð í 2. sæti en hún hefur hraðast hlaupið á 12,53 í ár. Hún kom í mark á 12,64 líkt og reyndar Priscilla Lopes-Schliep frá Kanada sem var aðeins hársbreidd á eftir McLellan.

Lolo Jones frá Bandaríkjunum varð í sjöunda sæti en hún átti besta tíma keppenda á árinu, 12,43 sekúndur. Damu Cherry, einnig frá Bandaríkjunum, hljóp á 12,65 og varð fjórða en hefur hraðast hlaupið á 12,47 sekúndum í ár.

Gullverðlaun til Bahrain

Rashid Ramzi frá Bahrain kom fyrstur í mark í 1.500 metra hlaupi karla á 3:32,94 mínútum. Asbel Kipruto Kiprop frá Kenýa varð annar og Nicholas Willis frá Nýja-Sjálandi hlaut bronsverðlaun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert