„Ísland tekur Frakkar á bólið"

Guðjón Valur Sigurðsson fagnar sigri á Spánverjum.
Guðjón Valur Sigurðsson fagnar sigri á Spánverjum. mbl.is/Brynjar Gauti

Handbolti hefur sjaldan eða aldrei fengið jafnmikla umfjöllun í heimspressunni og nú síðustu daga og það er Íslendingum að þakka. Ekki er annað að merkja en að allir - nema auðvitað Frakkar - vonist eftir því að Íslendingum takist að tryggja sér ólympíugullið í úrslitaleiknum í Peking á morgun.

Nokkrir af stærstu bandarísku fjölmiðlunum, þar á meðal ABC, New York Times, Washington Post, USA Today og National Public Radio, hafa fjallað um íslenska handboltalandsliðið síðustu daga og samt er handbolti nánast óþekkt íþrótt þar í landi. Breskir fjölmiðlar, þar á meðal BBC, hafa einnig gert árangri Íslendinga góð skil og ekki er heldur hægt að segja að handbolti sé þjóðaríþrótt þar í landi.

Norrænir fjölmiðlar fjölluðu nánast allir um sigur Íslands á Spánverjum og í dag hefur umfjöllunin haldið áfram. Sem dæmi um hana má nefna að blaðamaður norska ríkisútvarpsins segir, að eftir gullverðlaun norska kvennalandsliðsins í handbolta í dag sé kannski hægt að leyfa sér að vona að Ísland leiki það eftir á morgun.

Og Christel Behrmann, íþróttaritstjóri sænska vefjarins Skånska.se, bloggar í dag frá Peking og segir að Norðurlandabúar þar séu aðallega með hugann við handboltann nú. „Ísland gegn Frökkum í úrslitum, hugsið ykkur ef Íslendingarnir vinna, þá verður það fyrsta íslenska ólympíugullið."

Danska blaðið Politiken spyr lesendur sína í dag hvort þeir telji að Íslendingar hafi það sem þurfi til að vinna Frakka. Svörin eru almennt jákvæð og þessi lesandi er að minnsta kosti ekki í vafa:

„Ísland tekur frakkar á bólið og vinnur dystin í morgin! Haldið á, Ísland!" Undir þetta skrifar Malan Matras Joensen í Þórshöfn í Færeyjum.

Leikurinn við Frakka hefst klukkan 7:45 í fyrramálið og honum verður lýst í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert